132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Umferðaröryggismál.

[15:37]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég vil nota tækifærið og hvetja ráðherra til þess að sinna þessum málaflokki áfram af alúð og gefa ekkert eftir í þeim efnum. Það liggur fyrir að þetta er stór málaflokkur, ekki bara á Íslandi heldur í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Austurríkismenn sem núna eru að taka við forustu í Evrópusambandinu leggja áherslu á að á næstu sex mánuðum verði þetta eitt af þeim málum sem efst verði á baugi á þeim vettvangi. Við höfum t.d. séð land eins og Frakkland ná gríðarlegum árangri með samhæfðum aðgerðum niður allt stjórnstigið í þessum málaflokki. Hvert slys er gríðarlega dýrt eins og við þekkjum, ekki bara í peningum heldur fyrst og fremst tilfinningalega, ef viðkomandi aðili slasast illa eða það fer verr, að hann fellur frá.

Ég hvet því ráðherra áfram í þessum málaflokki. Ég vonast til að við sjáum bæði gott samstarf milli þeirra aðila sem hann nefndi og síðan verði gengið í aðra þá þætti sem nauðsynlegt er.