132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Umferðaröryggismál.

[15:38]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bæta ögn við það sem áður hefur komið fram. Ég tel að þessi samningur milli lögreglunnar, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu sé mikilvægur. En aðrir þættir öryggismálanna en þeir sem snúa að ökumönnum skipta auðvitað mjög miklu. Hv. þingmaður hefur áður varpað fram spurningum um þau mál, þ.e. hvað varðar aðstæður í vegakerfinu.

Við höfum lagt ríka áherslu á að Vegagerðin herði á kröfum um öryggisatriði á vegunum sjálfum. Nýjasta dæmið um þessa breyttu stefnu er Svínahraunsvegurinn þar sem víraleiðarar eru á milli akreina. Ég tel að það skipti afskaplega miklu máli. Það er liður í skipulögðum aðgerðum okkar í þeim tilgangi að auka öryggi í vegakerfinu.