132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er valdið eftir sem áður Alþingis. En með 1. gr. er það dregið fram að það er ekki til umræðu hjá þessari ríkisstjórn að selja Ríkisútvarpið. Það kemur ekki til greina og er ekki til umræðu og er ekki uppi á borði þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)

Þess vegna er afar brýnt og ágætt að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á þetta því að það liggur alveg ljóst fyrir að valdið mun á endanum alltaf verða Alþingis og það er ekki farið gegn 6. gr. fjárlaga í þeim tilgangi að vera með einhverjar hundakúnstir til þess að reyna að selja Ríkisútvarpið. Ef menn hins vegar ætla sér að gera það þá þarf alltaf meiri hluta þingsins, þ.e. lýðræðislegan vilja fólksins sem fulltrúar meiri hluta Alþingis eru fulltrúar fyrir. En það vald að breyta lögum verður alltaf og mun alltaf verða í höndum Alþingis. Ég sé ekki fram á að það hlutverk þingsins muni breytast, ekki nema stjórnskipunarnefndin ætli sér að gera það.