132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að tala skýrar í þessu máli. Hún deilir sjónarmiðum með mér um það að Rás 2 standi fyrir jákvæða þætti í starfsemi RÚV og má túlka orð hennar þannig að halda beri starfseminni áfram úti. Á þeim 22 árum sem Rás 2 hefur verið starfrækt hefur hún áunnið sér sess í menningu okkar og miðlun hvers konar og þess vegna sé það Alþingis að hafa á því skoðun hvort hún verði rekin áfram — það er ekki sambærilegt við það hvort klassísku rásirnar verði ein eða sjö heldur hefur Rás 2 áunnið sér svipaðan sess og Rás 1 og sjónvarpið sjálft. Þess vegna eigum við að hafa á því skoðun og þess vegna vildi ég skora á hæstv. ráðherra að tala skýrar og segja að það sé hennar sjónarmið að Rás 2 eigi að lifa áfram, það eigi ekki að selja hana eða leggja niður. Umræddu ákvæði mætti því breyta í meðförum menntamálanefndar þannig að þar væri ekki talað um eina hljóðvarpsrás heldur tvær. Það er mín skoðun og ég skora á hæstv. ráðherra að tala skýrar og taka undir það sjónarmið mitt.