132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:19]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að ég er á réttri leið með þetta frumvarp ef menn eru byrjaðir að æsa sig í ræðustól. Það er alveg rétt og ég vil undirstrika að hér gilda mjög skýr lagaákvæði um hlutafélög. Ég hvet hv. þingmenn, þar á meðal. hv. þm. Mörð Árnason, til að lesa það sem stendur í lögum um hlutafélög. Af hverju er verið að velja þessa leið? Ég ítreka það enn og aftur. Af hverju er verið að velja þessa leið með Ríkisútvarpið? Af því lögin um hlutafélög eru mjög skýr. Það er mjög skýrt kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til þess rekstrarforms og hvernig beri að starfrækja fyrirtæki samkvæmt því. Samþykktir eru að sjálfsögðu gerðar á hluthafafundi og þær verða öllum aðgengilegar. Ég vil minna enn og aftur á það frumvarp sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram um hlutafélög í opinberri eigu. Verið er að gera þetta allt saman opnara, skýrara og skilvirkara.