132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:20]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í tilefni af þeim orðum sem féllu áðan er kannski ráð að benda hæstv. menntamálaráðherra á að lesa lögin um hlutafélög. Lesa 9. gr. um samþykktir félaganna og síðan greinarnar sem þar eru á undan, að ég hygg 4.–6. gr. um stofnsamninginn og átta sig á hvað þar er um að ræða. Þau ákvæði sem hér eru í 8., 10. og 11. gr. frumvarpsins vísa alls ekki til þeirra hluta sem þar eru taldir í lögunum, heldur eiga þeir að vera aukalega. Ég gef því ekki mikið fyrir það að hæstv. menntamálaráðherra dreifi um salinn ábendingum um að lesa hlutafélagalögin. Við höfum gert það. Það er þannig. Þess vegna eiga þessar spurningar fullkomlega rétt á sér. Ég bið hæstv. menntamálaráðherra að láta af æsingi og pirringi í ræðustólnum og svara þessu þótt síðar verði. Hún getur notað til þess andsvararétt sinn eða síðari tvær ræður sínar sem hún þarf að flytja í dag og í kvöld.

Það er rétt að byrja á ræðunni aftur af því að það er auðvitað illt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki hafa treyst sér þrátt fyrir fjölmargar áskoranir að tala um fjölmiðlana alla og RÚV í samhengi við þá. Því að Ríkisútvarpið er ekki í lausu lofti. Það er hluti af fjölmiðlavettvanginum hérlendis með margvíslegum hætti. Þó hafa stjórnarflokkarnir kosið þá aðferð að semja sérstaklega sín á milli um þetta útvarp allra landsmanna. Frá því þetta allt upphófst hefur leynd og pukur einkennt þessa umfjöllun og vinnubrögð. Það kom í ljós síðast á föstudaginn þegar átti að afhenda menntamálanefnd þingsins skjölin frá ESA margfræg með sérstakri trúnaðarkvöð. Það var ekki fyrr en ráðherrarnir sáu hversu neyðarlegt þetta var í augum þjóðarinnar að vera leggja trúnað á þessi skjöl sem var búið að biðja um fyrir fjórum mánuðum, að henni var loksins aflétt. Enda komin af stað samtök sem báðu um þessi skjöl og hefðu fengið þau í gegnum úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Þetta er svona eitt dæmið.

Þetta gekk ekki upp og ráðherra vill ekki ræða þetta allt í samhengi heldur sérstaklega þetta sakleysislega frumvarp um rekstrarform sem hún segir að sé. Á dagskrá þingsins stendur nú reyndar að þetta séu heildarlög en ráðherrann verður auðvitað að meta það sjálf hvers konar lög hún flytur.

Við ræðum þá Ríkisútvarpið samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Um það er fyrst að segja að það er ekki gott. Það er ekki rökrétt, það hangir ekki vel saman enda er það niðurstaða úr hrossakaupum og málamiðlunum milli stjórnarflokkanna og síðan einhvers konar feluleik fram hjá skilyrðum ESA og hugsanlega að einhverju leyti Evrópuráðsins.

Samfylkingin hefur lengi bent á þá nauðsyn að breyta lagarammanum um Ríkisútvarpið og hún hefur lagt áherslu á að menn yrðu samferða um það. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, sagði eitthvert skáldið. Við erum út af fyrir sig sammála frumvarpsflytjanda eða frumvarpsflytjandi sammála okkur í fyrsta lagi að opna möguleika á skipulagsbreytingum á Ríkisútvarpinu, sem í því umhverfi sem nú er held ég orðið hentar ekki lengur. Í öðru lagi þeirri lagabreytingu að dagskrá sé í höndum starfsmanna, ef hægt er að taka mark á þeirri tillögu hjá menntamálaráðherra, en ekki t.d. útvarpsráðs, sem reyndar hefur ekki verið síðustu svona 5–10 árin að minnsta kosti. Við erum líka tilbúin að taka þátt í þeirri tilraun að láta yfirmann Ríkisútvarpsins fá svigrúm til að stjórna þar meira en verið hefur og bera um leið fulla ábyrgð á því sem þar gerist.

Síðan er það náttúrlega spurning hvernig þetta er orðað og hvernig þetta er gert, en annað í frumvarpinu er um margt miklu síðra og að sumu leyti afturför frá því sem nú er. Á hinn bóginn hefur frumvarpsflytjandinn og stjórnarflokkarnir í raun og veru gefist upp fyrir vandanum. Þannig má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og ekkert hafi komið út nema þá einhverjir músarhalar. Til dæmis er áfram pólitísk stjórnun í gegnum þingið á framsviðinu en raunveruleg völd eru í rauninni hjá ráðherranum á bak við tjöldin. Áfram er Ríkisútvarpinu att í þetta kapphlaup um tekjur af auglýsingum og kostun sem dregur úr hlutverki þess sem almannaútvarps og spillir líka sátt um tilveru Ríkisútvarpsins og hlutverk þess á fjölmiðlavettvangi. Í þriðja lagi er háeffunin alveg sérstakt klúður sem framsóknarmenn, einn þeirra er hér í salnum meira að segja, hafa látið stóra bróður toga sig með í. Í stað þess að tryggja alsmannaeign á Ríkisútvarpinu hafa þeir látið ginna sig í þetta háeff með innstæðulausu glamri í 1. og 2. gr. frumvarpsins sem kom ágætlega í ljós áðan í fyrsta andsvari hæstv. menntamálaráðherra. Og að auki er gengið þannig frá þessum málum að engin upplýsingaskylda hvílir á Ríkisútvarpinu hf. ef þetta verður að lögum eða hinum valdamikla útvarpsstjóra gagnvart almenningi eða Alþingi.

Þá verður að segjast eins og er að fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins veldur miklum áhyggjum. Engin yfirlýsing, engar áætlanir eru um það frá hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni að skila Ríkisútvarpinu inn í Ríkisútvarpið hf. öðruvísi en með neikvæða eiginfjárstöðu sem þýðir, forseti, að ef lánardrottnar tækju sig saman á fyrsta degi hins nýja hlutafélags gætu þeir sett það á hausinn. Ég bið menntamálaráðherra þá að leiðrétta mig um það, en það er ósköp einfaldlega þannig að ef ekki koma inn nema þessar 5 milljónir sem ráðherrarnir ætla af gæsku sinni að setja í hlutafé, þá þýðir hin neikvæða eiginfjárstaða það að á fyrsta degi gætu lánardrottnarnir tekið sig saman um að setja íslenska Ríkisútvarpið á hausinn. Það er afrekið með menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins til 15 eða 23 ára. Síðan bætist það við að eftir þrjár atrennur að því að reyna að búa til einhver lög um hvernig réttindi starfsmanna eigi að líta út við þessa breytingu, þá hefur það ekki ennþá tekist. Þau eru enn þannig að maður heyrir miklar mótbárur og athugasemdir frá starfsmönnum og samtökum þeirra.

Við Samfylkingarmenn höfum viljað að menn séu samferða í málinu. Við höfum lagt til í þingsályktunartillögu sem flutt var í fyrra að farið væri í gegnum Ríkisútvarpið í sameiginlegum starfshópi með fulltrúum þingflokkanna, blaðamönnum, frá öðrum fjölmiðlum og fræðimönnum. Okkur hefur þótt skipta miklu að skapa loksins frið í kringum útvarp allra landsmanna. Slíkur friður er forsendan fyrir því að almannaútvörpin í grannlöndunum, BBC, NRK, DR, sænska ríkisútvarpið o.s.frv. þrífast og þeim gengur vel í hinum nýja heimi. Þannig hefði ríkisstjórnin auðvitað átt að haga sér líka við fyrirhugaðar breytingar á Ríkisútvarpinu. Það hefur hún kosið að gera ekki og því miður vekur það tortryggni og kemur í veg fyrir að bæði við þingmenn og almenningur allur geti treyst því að verið sé að reyna að gera Ríkisútvarpið að heiðarlegu almannaútvarpi eins og þó kemur fram í þeim ræðum sem menntamálaráðherra flytur og alltaf meira og meira eftir því sem ræðunum fjölgar.

Grundvöllur okkar er sá að Ríkisútvarpið eigi að gera að sjálfstæðu og öflugu almannaútvarpi. Það er hlutverk þess og allt fyrirkomulag þarf þess vegna að skoða í því ljósi. Í rauninni hafa orðið litlar breytingar á lagaramma og hugsun inni í Ríkisútvarpinu og í kringum það frá 1986 þegar einkaleyfi þess var afnumið. Það er auðvitað fyrir löngu kominn tími á breytingarnar. Það hefur ekki allt verið illt um Ríkisútvarpið á þessum tíma. Auðvitað hefur fyrirtækið þróast og styrkst að sumu leyti en að öðru leyti veikst og hrörnað. Það er rétt sem Páll Magnússon, hinn nýi útvarpsstjóri, sagði þegar hann tók við starfi sínu, að Ríkisútvarpið er stefnulaust. Skipulagið er ómarkvisst. Fjárhagurinn hefur versnað, og ég vil bæta við því sem Páll þorði ekki að segja: Pólitísk afskipti Sjálfstæðisflokksins hafa brotið þar niður móral og sýrt það traust sem almenningur hefur lengstum haft á þessari stöð sinni.

Það sem fyrst verður fyrir að spyrja um í þessu nýja frumvarpi er: Er verið að stíga hér skref fram á við, að því að Ríkisútvarpið eigi að verða meira almannaútvarp en það hefur lengstum verið? Er verið að leggja meiri áherslu á almannaútvarpsþátt þessarar stofnunar eða fyrirtækis? Er til dæmis verið að auka hlut íslensks efnis eða innlendrar framleiðslu þar? Svarið í frumvarpinu er að það er ekki í raun og veru neitt í frumvarpinu sem sýnir það. Þar eru þessar fögru yfirlýsingar ýmsar í 3. gr. sem virðast nú ekki hafa verið bornar saman við helstu tilmæli Evrópuráðsins, Prag 1994. Mér er mjög til efs að þær hafi verið bornar síðan saman við þau tilmæli sem ráðherra nefndi hér, nr. (96) 10. Þau eru að vísu nefnd á einum stað en það er alveg óvíst hvort frumvarpið hefur verið lesið saman við þau tilmæli. Ég bið menntamálaráðherra að svara því ef hún getur, að það sé svo að hún geti fullyrt það.

Það er í raun ekkert í frumvarpinu sem eflir almannaútvarpshlutverk þess, ekkert sem tryggir íslenskt efni eða hvetur sérstaklega til þess að framleiðslan sé innlend. Þar veldur auðvitað líka miklu, sem kemur frumvarpinu ekkert við, að það er ekkert tannfé sem hið nýja Ríkisútvarp hf. á að fá við stofnun þess og engir fjármunir eru sjáanlegir til að vega upp á móti hugsanlegum samdrætti í tekjum sem mætti gera ráð fyrir í byrjun þess ef lögð væri aukin áhersla á almannaútvarpsþáttinn.

Þarna kemur líka við sögu að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið haldi áfram á þeirri braut að hafa stóran hluta af tekjum sínum af auglýsingum og kostun. Um 30% er þetta núna og hefur verið undanfarin ár, 25–33%, hygg ég, í 10–15 ár og sveiflast upp og niður meðal annars hreinlega af markaðnum, af því hvað mikið er að fá af markaðnum. Almannaútvarp sem reiðir sig á slíkar tekjur er alltaf í hættu. Það er í hættu vegna þess að það hneigist til að miða dagskrá sína við möguleikana á að ná tekjum á þennan hátt. Slíkt útvarp gerir það ekki að fyrsta hlutverki sínu að þjóna almenningi heldur freistast það til þess að bjóða upp á almenning sem markhópa fyrir þá sem þurfa að koma auglýsingum og kostun til hans. Þetta held ég að ekkert hafi verið hugsað og stafi í raun af því að hér er ekki verið að útbúa almennilegt frumvarp um Ríkisútvarpið heldur verið að kasta til höndunum. Ég tel að við hefðum átt að kanna hvort ekki væri hægt að draga saman í þessu og afla þá fjár til þess með öðrum hætti, til dæmis þannig að stefna að 10–15% hlutdeild auglýsinga og kostunar í tekjum í fyrsta áfanga að minnsta kosti og sjá til hvernig það kæmi út, og athuga hvað ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefði sagt um það því athugasemdir hennar beinast mjög að öllu sem varða samkeppnisþætti í því fyrirtæki sem hér er um að ræða.

Þá komum við einmitt að hlutafélaginu. Það er klárt að þegar trúnaðinum var aflétt af þessum skjölum þá komust menn í þau og sáu að þar var ekki um það að ræða sem ráðherrar höfðu gefið í skyn hver af öðrum, þ.e. að þar væri fyrirskipun um stofnun hlutafélags. Það er ekki þannig. Það voru athugasemdir við núverandi form Ríkisútvarpsins, athugasemdir við sameignarfélagið sem ráðherrarnir voru svo vitlausir að láta sér detta í hug í fyrra til að friða Framsóknarflokkinn. En ekki er bent á neinar einustu lausnir í því sem handfastar eru og engan veginn sagt að hér þurfum við að stofna hlutafélag. Það má hugsa sér margar leiðir. Þrjár þeirra eru ósköp einfaldlega þessar: Í fyrsta lagi að draga úr samkeppnisþættinum og halda þá því formi sem nú er. Ég hygg að þetta hafi ekki verið rætt við Eftirlitsstofnun EFTA. Í öðru lagi að stofna vissulega hlutafélag og í þriðja lagi t.d. að gera þetta að sjálfseignarstofnun sem ríkisstjórnin og ráðherrarnir hafa aldrei íhugað alvarlega. Framsóknarflokkurinn sem nú er horfinn úr salnum — og það sýnir vel hver afstaða hans og áhugi er á þessu máli — Framsóknarflokkurinn lét ekki fara fram neina athugun á því heldur hvort það væri hægt þó hann hefði allt fram á síðasta ár haft það í landsfundarsamþykktum sínum að það ætti að vera sjálfseignarstofnun, alveg eins og við samfylkingarmenn höfum lagt áherslu á. Ég segi um hlutafélagið sem er trúaratriði hjá Sjálfstæðisflokknum — það er nánast að þeir falli fram og tilbiðji þetta orð — að það er ekki svo hjá okkur samfylkingarmönnum. Við lítum ekki á orðið eða hugtakið hlutafélag sem eðlisillt eða gott með neinum hætti. Hlutafélag er ágætt rekstrarform og hefur reynst prýðilega þar sem það hefur nú mest að gera, þ.e. í samkeppnisumhverfi í atvinnulífinu. Það er alveg rétt. Menn þekkja ágætlega formið og reglur í kringum það. En hvað vinnst annað? Hvað er það sem hlutafélag er best í? Er það ekki þannig að það sé kjörið til þess t.d. að sveigja sig fram og aftur á markaðinum með því að auka hlutafé eða minnka það eða fá nýja hluthafa? Stendur það til hér? Nei, það stendur ekki til því hluthafinn á bara að vera einn. Hann leggur upp með 5 millj. Ég veit ekki hvort hann ætlar að bæta eitthvað við það, en það á ekki að nýta þessa möguleika. Það á heldur ekki að nýta þá möguleika að hlutafélagið geti dreift sér eða stofnað önnur hlutafélög. Það er ekki þannig að hlutafélagið eigi yfir höfuð að fúnkera sem hlutafélag á markaði.

Við höfum í stjórnarandstöðunni á þinginu, Samfylkingin og Vinstri grænir að hluta — Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður flutti hér ágæta þingsályktunartillögu, beitt okkur fyrir því að sett verði ákvæði um opinber hlutafélög, í hlutafélagalögin eða að sérstök lög sett um þau, og nú er komið fram frumvarp. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fyrsti flutningsmaður þess frumvarps. Við gætum verið til umræðu um að hafa Ríkisútvarpið í hlutafélagsformi, þó við sjáum ekki beinlínis gagnið af því, ef þá yrðu uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fram t.d. í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þau að upplýsingalög og stjórnsýslulög séu virt annaðhvort í lögum um opinber hlutafélög eða í sérákvæðum um Ríkisútvarpið, og ef þar yrði ákvæði um að aukinn meiri hluta þyrfti á þingi til að selja hlutafé eða sameina félagið öðru o.s.frv. sem kveðið er á um að ekki megi í þessu frumvarpi sem við erum að ræða. En það kom í ljós í andsvarinu áðan að það er hægt að breyta því með venjulegu „þrátt-fyrir“-ákvæði í 6. gr. fjárlaga á hverju einasta ári. Ekki er mikið gert með það. En við værum út af fyrir sig til í að skoða slíka lausn ef hún stendur til boða og ég vil gjarnan vita hver afstaða hæstv. menntamálaráðherra er til þess. En ég verð að segja að að óbreyttum þessum ákvæðum og reyndar ýmsum öðrum er ekki hægt að fallast á að hægt sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Sagan er auðvitað sú að sporin hræða. Öll þau ríkishlutafélög sem hér hafa verið stofnuð hafa verið einkavædd að lokum og það ætlum við ekki að leyfa Sjálfstæðisflokknum að gera við Ríkisútvarpið.

Ég vil svo segja — ég á lítinn tíma eftir og verð greinilega að koma hér aftur — að við í Samfylkingunni leggjum áherslu á tvö önnur meginatriði í þessu frumvarpi. Það er í fyrsta lagi, eins og ég hef rakið áður, að ekki er gert neitt í því að reyna að stilla svo til að hið pólitíska vald eigi ekki eins greiða leið inn í Ríkisútvarpið og reyndin hefur verið undanfarin ár. Það er ríkisstjórnarmeirihluti í hinu nýja útvarpsráði og umboð stjórnarmanna þar er í raun þrengra og það er skilyrtara við Alþingi, þ.e. þingflokkana, stjórnmálaflokkana, en áður var vegna þess að þá menn á að kjósa á árs fresti. Útvarpsstjórinn, sem við erum, eins og ég sagði áðan, reiðubúin að gera þá tilraun með að hafi meiri völd en hingað til hefur tíðkast, verður annars vegar að hafa starfsfrið. Það má ekki setja hann undir þessa stjórn þannig að hægt sé að ráða hann eða reka hann á hvaða tíma sem er. Það er módel sem menn hafa tekið úr atvinnulífinu en á bara ekki hér við. Hins vegar er eðlilegt að hann hafi ákveðið tímabil þannig að menn geti staldrað við á eftir og skoðað hvernig hann hefur staðið sig og hvort ástæða sé til að ráða hann aftur.

Enn verður að nefna það að völd menntamálaráðherra eru með ýmsum hætti falin í þessu frumvarpi. Um þjónustusamning þann sem menntamálaráðherra hefur sagst ætla að gera við Ríkisútvarpið og hvernig hann verður skilyrtur, er ekki neitt. Samþykktirnar eru faldar. Þær mega ekki vera með í greinargerðinni, samþykktirnar og stofnsamningurinn. Það sem maður hræðist að úr þessu verði er því að hér sé verið að búa til félag eða fyrirtæki sem sameinar hið versta úr báðum heimum, sameinar (Forseti hringir.) silaskapinn úr opinbera kerfinu og síðan leyndina úr einkakerfinu.