132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst segja að við höfum lagt fyrst og fremst áherslu á innihald Ríkisútvarpsins en ekki ytra byrði þess. Við höfum lagt áherslu á að Ríkisútvarpið sé almannaútvarp og á þeim grunni höfum við svo byggt með því að spyrja okkur alltaf: Á hverju þarf almannaútvarp að halda? Hvernig er eðlilegt að almannaútvarp sé í laginu? Við höfum leitað fordæma fyrir þessu. Rekstrarform er auðvitað ekki aukaatriði. En menn eiga fyrst og fremst að horfa á þetta: Er Ríkisútvarpið almannaútvarp og hvaða hlutverk hefur það sem slíkt á Íslandi og á þeim fjölmiðlavettvangi sem við upplifum núna? Við höfum ósköp einfaldlega — ég skil ekkert í hv. þingmanni Sigurður Kára Kristjánssyni að spyrja að þessu. Hann á að vita þetta af því við höfum rætt, eins og hann sagði, oft saman um Ríkisútvarpið — við höfum lagt til að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun, það verði losað úr viðjum ríkisstofnunarinnar, sem ekki eru að öllu leyti heppilegar þó margt mætti nú laga með einföldum lagabreytingum innan núverandi ramma, og sagt að Ríkisútvarpið mundi sóma sér vel sem sjálfseignarstofnun eins og Viðskiptaháskólinn á Bifröst er og Háskólinn í Reykjavík var til skamms tíma og ég hygg að Verslunarskólinn sé enn þá. Með þeim hætti væri hægt að svara helstu kröfum sem komið hafa um breytt rekstrarform. En við erum líka að tala um breytt skipulag á Ríkisútvarpinu sem varðar ekki kannski hvað Ríkisútvarpið heitir. Það er alveg augljóst að Ríkisútvarpið verður ekki, forseti, venjulegt hlutafélag vegna þess sérstaka eignarforms sem á því er, vegna þeirra sérstöku skilyrða sem það má búa við um stofnun annarra hlutafélaga og ýmislegt það sem hlutafélög venjulega gera. Því má spyrja á móti: Hvers konar rekstrarformi ætla ríkisstjórnin og Sigurður Kári Kristjánsson, hinn mikli stuðningsmaður (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins hf., sér að koma hér á þetta batterí?