132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Í hinni feikilöngu ræðu minni sem tók heilar 20 mínútur tókst mér að minnast á það að Samfylkingin hefði þessa stefnu að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Af hverju? Jú, vegna þess í fyrsta lagi að sporin hræða hér á landi. Ég veit ekki hvar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var þegar gert var hlutafélag úr Landssímanum, en þá voru oft haldnar hér ræður um að það ætti ekki að gera til að selja hann, það væri bara hentugt rekstrarform. Menn þekktu þetta og þetta væri svo eftirsótt o.s.frv. og þannig má í raun fara frá fyrirtæki til fyrirtækis. Öll, ég segi nánast öll fyrirtæki sem hér hafa verið gerð að hlutafélögum og voru ríkisstofnanir hafa verið seld núna. Þess vegna spyrjum við og það er viðeigandi að spyrja þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemur hér upp í stólinn: Stendur það ekki til þegar hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, er farin úr sínum stól og Sigurður Kári Kristjánsson kominn í hann? Var ekki þessi hv. þingmaður að flytja um það frumvarp í fyrra ásamt hv. þm. Pétri Blöndal og einhverjum fleiri sjálfstæðismönnum að þetta yrði selt, þessi ómögulega stofnun og fyrirtæki? Ég man ekki betur.

Það eru fyrst og fremst tvær ástæður, það er tvennt sem það rekstrarform á að uppfylla sem við viljum hafa. Annars vegar það að almannaeignin á Ríkisútvarpinu sé skýr og það er hún sem ríkisstofnun, það er hún sem sjálfseignarstofnun og það gæti hún verið ef hún væri opinbert hlutafélag með þeim skilyrðum sem tiltekin eru t.d. í ágætu frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og fleiri.

Ég man nú ekki hvað hitt var en ég vona að ég komi að því síðar. Þetta er alveg ljóst, það er annars vegar eignarformið og — já, ég er bara búinn að gleyma því og biðst afsökunar á því, forseti, en skal svara hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni því síðar.