132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Andsvar mitt var svipaðs eðlis og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég hlustaði vel á aðaltalsmann Samfylkingarinnar í málefnum Ríkisútvarpsins og reyndi að greina stefnu Samfylkingarinnar í garð Ríkisútvarpsins. Það vita allir sem hafa fylgst með umræðunni að þetta frumvarp, breytingar á Ríkisútvarpinu, hefur átt sér langan aðdraganda, það kom fram í ræðu minni, mjög langan aðdraganda. Það eru a.m.k. tíu ár síðan menn fóru að ræða að breyta þyrfti rekstrarfyrirkomulagi hjá Ríkisútvarpinu.

Hvað gerist síðan eftir tíu ár? Hingað kemur helsti talsmaður Samfylkingarinnar, hinn ágæti hv. þm. Mörður Árnason og skilar bókstaflega auðu fyrir Samfylkinguna. Það er ekki fyrr en í seinna andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að hægt er að kreista það út úr hv. þm. Merði Árnasyni hver stefna Samfylkingarinnar er í málefnum Ríkisútvarpsins. Í síðara andsvari hv. þingmanns var hægt að fá það út úr hv. þingmanni að það væri sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið sem væri jú heppilegast. Svona að öllu gamni slepptu virtist það vera meginstefna Samfylkingarinnar og það er svo sem ágætt að hafa fengið það fram.

Frú forseti. Ég var í sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu með varaformanni Samfylkingarinnar þar sem ég spurði hann sérstaklega hver væru skilyrði Samfylkingarinnar til að styðja þetta frumvarp. Það voru tvö atriði. Í fyrsta lagi að Ríkisútvarpið þyrfti að vera öflugt almannaþjónustuútvarp í ríkiseigu og það er einmitt það sem þetta frumvarp gengur út á, að skapa skilyrði til þess að Ríkisútvarpið geti staðið undir þeirri þjónustu og þeim kröfum. Og síðan hitt að hægt væri að nálgast upplýsingar um stjórn og stjórnskipulag Ríkisútvarpsins, og það er verið að gera með öðru frumvarpi viðskiptaráðherra.

Ég spyr því (Forseti hringir.) hv. þm. Mörð Árnason: Er hann ekki sammála varaformanni sínum varðandi þetta atriði?