132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:52]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski nákvæmlega í þessu tilviki frekar um það að ræða að varaformaðurinn sé sammála mér.

Oft eiga athugasemdir af því tagi sem hæstv. menntamálaráðherra flutti hér í andsvari við. Oft gerist það vissulega að einstakir þingmenn og jafnvel talsmenn flokka koma upp og hafa mikið á móti hlutum og eru að reyna að draga partana hvern í sína átt í málum sem þeir jafnvel þekkja ekki vel eða vilja forðast að taka beina afstöðu til. En sjaldan eða aldrei hefur það átt jafnilla við og núna vegna þess að Samfylkingin hefur allt frá upphafi — hún er að vísu ekki nema fimm ára gömul — lagt mikla áherslu á að vinna einmitt í ríkisútvarpsmálunum. Við höfum verið nánast í samfelldu starfi frá árinu 2000 og eiginlega frá árinu 1999 að vinna í þessu máli. Ég er stoltur af því að geta sagt að ég hef tekið þátt í þeirri vinnu og á köflum haft um hana forustu.

Að menntamálaráðherra, þingmaður eða bara einstaklingur sem er bæði þingmaður og menntamálaráðherra skuli koma hér upp með þetta andsvar og gleyma því að í fyrra var flutt þingsályktunartillaga, sem var nú töluverð að vöxtum og með tveimur mjög merkilegum fylgiskjölum, hér í þinginu — ég man ekki eftir að hæstv. menntamálaráðherra hafi sýnt þeirri umræðu og þeirri vinnu þá virðingu að vera viðstödd hana eða tekið þátt í umræðum um hana, og að hún skuli gera þetta er í raun og veru fáheyrt. Ég skil eiginlega ekkert í menntamálaráðherranum að láta svona.

Það sem ég gleymdi hér áðan, ég er búinn að finna það núna og biðst enn afsökunar á því, forseti, kemur líka fyrir í þessu andsvari vegna þess að spurt er um stefnu okkar. Við höfum sagt: Það rekstrarform sem valið verður að lokum skiptir minna máli en innihaldið, sem er almannaútvarpsinnihaldið. En það þarf að gera a.m.k. tvennt. Tryggja þarf almannaeignina, t.d. með auknum meiri hluta í opinberu hlutafélagi (Forseti hringir.) eða með sjálfseignarstofnun og þá þarf að tryggja að upplýsingalög, (Forseti hringir.) stjórnsýslulög og ákvæðið um aðgang almennings, fjölmiðla og þingmanna séu klár í slíku formi.