132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:56]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Páll Magnússon er merkur maður og það var gaman að heyra í honum þegar hann tók við útvarpsstjórahlutverki sínu. Þá sagði hann ýmislegt sem væri full ástæða fyrir hæstv. menntamálaráðherra til að rifja upp. Hann talaði m.a. um almannaútvarpshlutverkið og hann talaði um auglýsingar og kostun. Hann talaði um ýmsa hluti, þar á meðal um rekstrarform, það er alveg rétt, eða um formið því að rekstrarform er eitt og skipulag sjálfrar stofnunarinnar er annað. Ég hygg að skipulag stofnunarinnar með þessum þremur ráðherraskipuðu framkvæmdastjórum sem er algjörlega óljóst hvaða völd hafa gagnvart svo þessum útvarpsstjóra, og útvarpsráði o.s.frv., sé í raun og veru löngu komið fjandans til og full ástæða sé til að breyta því.

Það sem við höfum hins vegar sagt er að innihaldið skiptir meira máli og ég lít svo á að Páll hafi tekið undir það þegar hann segir t.d. að meginhlutinn sé dagskráin. Páll Magnússon sagði það ágætlega líka að alla peninga sem Ríkisútvarpið fær, þá peninga sem ekki fara í dagskrána þurfi að skoða sérstaklega.

Það er merkilegt sem Páll Magnússon segir síðast í þeirri grein sem hæstv. menntamálaráðherra vitnaði til eftir að hafa fengið hana hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni en hefur greinilega ekki lesið sjálf. Ég skora á ráðherra að lesa hana til enda því að síðasti hluti greinarinnar fjallar einmitt um hvernig ekki er hægt að reka ríkisútvarp með því að hafa enga peninga til þess. Þar er rakið að eiginfjárstaðan er neikvæð. Páll Magnússon er að vísu ekki jafnhranalegur og ég að segja frá því að ef lánardrottnar tækju sig saman gætu þeir knúið þetta fyrirtæki á hnén ef þeir vilja en þróunin í eiginfjárstöðunni hefur verið mjög óhagkvæm. Það eru heilar 5 milljónir — ekki 50 eða 500 sem væri nær lagi — sem á að setja í hlutafélagið. Gaman væri að heyra hæstv. menntamálaráðherra tala um þetta.

Vissulega er rétt að við fluttum þingsályktunartillögu. Þær eru nú oft þannig að formi til að maður lætur skipa nefnd en það gerðum við einmitt í ákveðnu skyni. Við gerðum það í því skyni, ég tók það fram í hinni gríðarlega löngu ræðu minni áðan, að við reyndum að ná samstöðu, sátt og samræðu um Ríkisútvarpið. Það hefur hins vegar ekki verið stíll hæstv. menntamálaráðherra.