132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið hefur um áratuga skeið gegnt lykilhlutverki í íslensku samfélagi, eða allar götur frá því að það var sett á laggirnar fyrir 75 árum. Ríkisútvarpið er ekki einvörðungu framleiðslustofnun þar sem skapað er dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp. Ríkisútvarpið er ákveðin kjölfesta í þjóðfélagsumræðunni. Ríkisútvarpið er menningarstofnun á sviði tónlistar, leiklistar og annarra listgreina. Ríkisútvarpið er safn þar sem varðveitt eru mikilvæg menningarverðmæti. Í tímans rás hefur gengið á ýmsu í rekstri Ríkisútvarpsins. Stundum hefur blásið byr í segl og kraftur og framfarasókn einkennt starfsemina. Á öðrum tímum hefur hún gengið erfiðlega og átt við mótbyr að stríða.

Á heildina litið hafa starfsmenn Ríkisútvarpsins áorkað miklu. Þar hefur fengist til starfa úrvalsfólk, margir fyrirferðarmiklir einstaklingar. Ríkisútvarpið hefur notið sköpunarkrafts þessa fólks og starfsmennirnir hafa fyrir sitt leyti notið velvilja í samfélaginu. Tengslin á milli þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins hafa ævinlega verið mjög sterk. Okkur ber að fara varlega með þau tengsl. Það kann sannast sagna ekki góðri lukku að stýra að lagt sé upp í för með frumvarp sem gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum á rekstrarformi Ríkisútvarpsins í ófriði við stjórnarandstöðuna á þingi og í andstöðu við marga landsmenn. Þannig hefur það aftur og ítrekað komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vill að Ríkisútvarpið sé í almannaeign og undir forsjá þjóðarinnar.

Nú er okkur sagt að það sé lífsspursmál að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins og gera það sem líkast bisnessfyrirtæki. Það er sagt vera lífsspursmál. Við heyrum það frá hæstv. menntamálaráðherra og við heyrum það frá útvarpsstjóranum. Hér er talað um að gera útvarpið nútímalegt. Finnst Páli Magnússyni útvarpsstjóra það nútímalegra að starfa á Stöð 2 þar sem hann gat rekið fólk í kyrrþey en að starfa á Ríkisútvarpinu þar sem starfsfólk nýtur ákveðinna réttinda, varið gegn hvers kyns duttlungastjórnun? Það eru þau lög og þau réttindi sem stendur til að hafa af fólkinu.

Það er ekki einvörðungu svo að rýra eigi lífeyrisréttindin að hluta hjá þeim sem þegar starfa hjá stofnuninni. Við munum gera rækilegri grein fyrir því þegar líður á þessa umræðu, þegar málið fer til menntamálanefndar. Ég ætla ekki að fara djúpt í það að sinni en það munu eflaust aðrir gera. Hið sama gildir um lífeyrisréttindin hjá nýjum starfsmönnum stofnunarinnar. Ég fæ ekki betur séð og skilið en þeim verði t.d. meinaður aðgangur að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem að forminu til væri þó eðlilegt og lagalega mögulegt að þeir fengju aðgang að.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í önnur frumvörp sem liggja fyrir þinginu. Til dæmis er vísað í frumvarp til laga um stofnun Matvælarannsókna hf. sem samkvæmt áætlunum þingsins er á dagskrá í þessari viku. Þar er farið nokkuð í réttindamálin og talað sæmilega tæpitungulaust um þau réttindi. Þar er nefnt að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gildi aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt. Þessar reglur eru sagðar standa í vegi fyrir sveigjanlegri starfsmannastefnu, eins og það er kallað. Hvað felst í því? Meðal annars það að hjá fyrirtæki er almennt hægt að segja starfsmanni upp störfum skýringalaust. Gagnvart starfsmönnum ríkisins, sem njóta réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur þeirra, þurfa málefnalegar ástæður að vera til grundvallar og stjórnanda sem ætlar að segja viðkomandi upp störfum ber að gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt eða svara fyrir sig og leiðrétta misskilning. Þetta á núna að nema úr gildi. Þetta á að nema úr gildi á stofnun sem hefur m.a. það hlutverk að varðveita lýðræði í landinu og veita aðhald. Núna verður hægt, samkvæmt duttlungavaldi útvarpsstjóra, að reka fréttamenn og fréttastjóra eins og gert var á Stöð 2. Sami aðili og nú er útvarpsstjóri á Ríkisútvarpinu rak fréttastjórann á Stöð 2 skýringalaust. Er það þetta sem hæstv. menntamálaráðherra á við þegar hann talar um nútímaleg vinnubrögð? Hvað er það nákvæmlega sem ráðherrann á við?

Ég sótti fund Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins í Norræna húsinu fyrir nokkrum vikum. Þá spurði ég útvarpsstjóra að því hvað hann ætti við og fékk sannast sagna ekki skilið annað en að völdin til að ráða og reka væru ríflegri í hlutafélagaformi en í ríkisstofnun. Er það þetta sem lagt er til? Er það þetta sem hæstv. menntamálaráðherra á við þegar hann talar um nútímalega stjórnunarhætti?

Á síðasta áratug síðustu aldar voru sett ýmis lög sem gengu út á að gera stjórnsýsluna opnari. Árin 1993 og 1996 voru sett skýr og einföld lög, upplýsinga- og stjórnsýslulög. Þau áttu að gera borgurunum kleift að fylgjast betur með starfsemi þeirra stofnana sem reknar voru í almenningsþágu. Í stað þess að stofnanir taki mið af þessum lögum gengur allt út á að rekstrarformi þeirra verði breytt þannig að ekki þurfi lengur að lúta þeim reglum. Er ekki ástæða til að staldra sérstaklega við þegar um er að ræða stofnun sem ætlað er það hlutverk að vera kjölfesta í þjóðfélagsumræðunni, sjálf kjölfestan? Nei, þá er þrengt að henni, hún tekin undan þeim lögum, upplýsingalögunum og stjórnsýslulögunum, og völdin færð á hendur einum aðila. Og hver ræður hann og rekur? Jú, það er stjórn stofnunarinnar, ígildi núverandi útvarpsráðs. Hvernig er kosið í það? Það er meirihlutavaldið á Alþingi sem kýs hina nýju stjórn, sem getur síðan rekið einvaldinn á Ríkisútvarpinu. Finnst mönnum þetta horfa til framfara? Þetta er skref langt aftur í forneskju.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram frumvarp þar sem tekið er á þeim vandkvæðum og hnútum sem fyrir eru í stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Þar má ýmislegt betur fara og miklu betur fara. Þannig teljum við að það sem lýtur að daglegum rekstri og ráðningu starfsmanna eigi að færa inn í stofnunina en ekki færa það í hendur eins manns. Nei, þar tölum við um framkvæmdastjórn þar sem koma að fulltrúar stjórnsýslunnar, ekki bara einn maður, fulltrúar starfsmanna og fulltrúi þess sem við köllum dagskrárráð. Það er að sumu leyti ígildi gamla útvarpsráðsins að því frátöldu að það endurspeglar ekki valdahlutföll á Alþingi og þar með ríkisstjórnarmeirihlutaviljann. Nei, það endurspeglar viðhorf fulltrúa þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi og annarra hreyfinga einnig, stofnana og hreyfinga, Neytendasamtakanna, Bandalags listamanna, sveitarfélaganna í landinu. Það er ekkert sáluhjálparatriði hvernig því yrði endanlega fyrir komið en þetta er hugmyndin og þær tillögur sem við höfum lagt fram. Hugsanlega mættu fleiri koma að, hugsanlega einhverjir aðrir aðilar að einhverju leyti.

Um þetta höfum við verið tilbúin að reyna að ná samstöðu á Alþingi. Auðvitað átti hæstv. ráðherra að leita eftir samstarfi við þingið og skapa samstöðu um þessa gömlu menningarstofnun sem öllum Íslendingum þykir vænt um. Nei, þá er kosið að keyra áfram með eitt auga í miðju enni, líta hvorki til hægri né vinstri og reyna að keyra málið í gegn.

Að ýmsu er að hyggja þegar við hugum að framtíð Ríkisútvarpsins. Ég held að þegar allt kemur til alls sé það fjárhagsvandinn sem hafi staðið Ríkisútvarpinu fyrir þrifum. Í ágætri úttekt sem birtist í Morgunblaðinu í mars, nánar tiltekið 6. mars 2005, kemur fram að tekjur stofnunarinnar á síðustu árum hafi ekki fylgt launaþróun í landinu. Séu afnotagjöldin uppreiknuð miðað við launavísitölu hafa þau dregist saman um 19% á árunum 1994–2004. Auglýsingatekjur hafa með sama útreikningi lækkað mun minna en heildartekjur drógust saman um 15% á liðnum áratug, miðað við launavísitöluna.

Þarna kemur líka fram hvernig Ríkisútvarpið hefur brugðist við. Mér hefur stundum fundist Ríkisútvarpið verða fyrir ómaklegri gagnrýni. Allt of oft hafa menn neitað að viðurkenna það sem gott hefur verið gert í þeirri stofnun á ýmsum sviðum, t.d. í tölvutækninni. Ég kann ekki einu sinni að fara með það en menn hafa nýtt sér ýmsa kosti og möguleika tækninnar á undanförnum árum. Menn hafa hins vegar margir kosið að sjá ekkert gott, engan hvítan blett á þessari stofnun, vegna þess að réttilega hefur sitthvað gengið úr skorðum sem ástæða hefur verið til að gagnrýna harkalega. Og það getum við gert vegna þess að við höfum haft aðgang að upplýsingum í gegnum útvarpsráð, í gegnum upplýsingalög og stjórnsýslulög. Starfsmenn hafa haft ákveðna stoð og vernd í þeim lögum sem eru beinlínis sett til að tryggja sjálfstæða einstaklinga í sjálfstæðri stofnun. Til þess eru lögin sett.

Nú er hins vegar einblínt á stjórnandann, valdboðandann. Menn horfa ekki á hinn einstaka starfsmann, sköpunargleði hans og sköpunarmátt. Nei, nú gengur allt út á stjórnandann sem á nútímalegan hátt á að geta ráðið og rekið. Mönnum finnast þetta vera framfarir. Ekki kem ég auga á þær framfarir.

Ég spurði: Hvernig hefur Ríkisútvarpið brugðist við vanda sínum? Það kemur fram í framangreindri úttekt Morgunblaðsins að Ríkisútvarpið hafi eftir megni reynt að hagræða í rekstrinum og t.d. hafi starfsmönnum fækkað verulega undanfarin ár, eða um 15% frá árinu 1996. Það ár voru fastráðnir starfsmenn að meðaltali 378 en voru um 320 árið 2004. Þannig hefur verið brugðist við.

Skyldi nú eitthvað vera í þessum tillögum og þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem gefur vísbendingu um að fjárhagur Ríkisútvarpsins verði traustari þegar fram líða stundir? Jú, vissulega tvennt. Lífeyriskjör starfsmanna verða rýrari, það þarf að greiða minna í lífeyrissjóðinn, það þarf að borga minna fyrir réttindi starfsfólksins — það er rétt, hægt er að spara svoleiðis — og menn losna við Sinfóníuna. Menn losna við Sinfóníuna sem var keppikefli Ríkisútvarpsins áratugum saman að treysta böndin við. Nú bregður svo við að meira að segja stjórnendur Ríkisútvarpsins vilja losna við hana, hafa ekki einu sinni nýtt sér það sem er í samningum um það sem Ríkisútvarpið getur gert með tónlistarflutning hljómsveitarinnar. Nei, nú á að skera á þessi tengsl og menn hrópa húrra fyrir því. Ég geri það ekki. Menn ætla að skila þessari stofnun með neikvæða eiginfjárstöðu inn í hlutafélagaform með takmarkaðri ríkisábyrgð væntanlega. Það er það sem menn ætla að gera. Ég minnist allrar umræðunnar sem fram hefur farið í þessum þingsal þar sem spurt hefur verið hvort menn væru reiðubúnir að láta meira fé af hendi rakna til Ríkisútvarpsins í hvaða formi sem það svo gerðist, hvort sem það væru afnotagjöld eða annað form. Það hefur ekki verið vilji til þess, ekki hjá stjórnarmeirihlutanum. Stjórnarandstaðan hefur viljað ræða leiðir til að efla og treysta fjárhagslegan grundvöll Ríkisútvarpsins. Ég hef aldrei heyrt það frá stjórnarmeirihlutanum. Aldrei nokkurn tímann.

Síðan má ræða aðra þætti líka, t.d. fjármögnunina, hvort fara eigi yfir í annað innheimtuform. Almennt hafa menn verið á því máli í herbúðum ríkisútvarpsmanna að halda sjálfstæði stofnunarinnar hvað það snertir. En í ágætri skýrslu sem hér hefur verið birt, Fjármögnun Ríkisútvarpsins, er m.a. tekinn og settur í öndvegi sá valkostur sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði veljum og leggjum til í frumvarpi okkar um að tengja göldin fasteignum. Hér er það tíundað í þessari skýrslu að þetta væri sennilega heppilegasta fyrirkomulagið. Hvað finnst hæstv. menntamálaráðherra um það? Hvers vegna í ósköpunum á ekki að efna til umræðu í þinginu um þá valkosti sem eru í boði? Ég vil ekki taka undir með hæstv. ráðherra sem vísar á bug eða gerir lítið úr tillögum um að skipa nefnd til að reyna að ná sátt í þessu máli eins og fram hafa komið frá Samfylkingunni. Mér finnst það ekki til að gera lítið úr. Það er nákvæmlega þannig sem á að vinna þetta. Þessi 75 ára stofnun sem þjóðin á er ekkert einkamál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar sem hefur lagst í duftið og ætlar að ganga á bak orða sinna og samþykkta flokks síns og heitstrenginga um að Ríkisútvarpið verði ekki gert að hlutafélagi.