132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir ágæta ræðu, mjög málefnalega og yfirgripsmikla. Ég tek undir með honum að við erum öll að vinna að sameiginlegum hagsmunum, sem er náttúrlega að gera samfélagið enn betra en það er í dag. Við erum m.a. að ræða frumvarpið um Ríkisútvarpið með það í huga að efla og styrkja innviði þess og hlutverk, sem við erum öll sammála um að sé að efla menningarhlutverkið.

Rétt aðeins varðandi almennu fjölmiðlanefndina þá er rétt að upplýsa að lögfræðinganefndin hefur þegar fundað og mun síðan vera í samráði við fulltrúa stjórnmálaflokkanna eins og um var rætt. Mig langar til þess að vitna í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar frá apríl í fyrra þegar sameignarfélagsformið var til umræðu en þá segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Maður spyr sig hvort ekki sé alveg eins gott að breyta þessu bara í hlutafélag. Við vitum þó alla vega hvað hlutafélag er. Norska ríkisútvarpið er hlutafélag. Það virðist ganga mjög vel. Þar dettur engum í hug að selja það hlutafélag. Það er mjög virt ríkisstofnun, mjög öflugt hlutafélag. Það er bundið í norsk lög að það skuli vera hlutafélag og er búið að vera þannig frá því 1996 að því ég best veit og bara gengið mjög vel, norska ríkisútvarpið, NRK A/S, „aksjeselskap“ á norsku, eins og stendur í lögunum norsku sem ég er með fyrir framan mig. Það virðist ganga mjög vel.“

Ég er alveg sammála því, frú forseti. Það virðist ganga mjög vel. Tilgangur og markmið með þessu frumvarpi er líka að Ríkisútvarpið gangi mjög vel, að það verði áfram félag í eigu ríkisins sem komi sérstaklega til með að stuðla að öflugu menningarhlutverki þess. Hvað sér hv. þingmaður annað við þessa leið en norsku leiðina? Hvað er það sem hv. þingmaður, sem flutti hér ágæta ræðu, sér frumvarpinu til foráttu þannig að Ríkisútvarpið geti ekki orðið hlutafélag alveg eins og norska ríkisútvarpið er í dag?