132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi hvergi nokkurs staðar sagt það berum orðum að ég væri endilega svo mikið á móti því að Ríkisútvarpið væri gert að hlutafélagi, ég hef aldrei sagt það. Það sem ég hef hins vegar kallað eftir eru skýrari röksemdir og útskýringar frá stjórnarflokkunum og frá hæstv. menntamálaráðherra um hvert markmiðið eigi að vera. Hér er talað með loðnum hætti um að þetta verði þá skilvirkara og betri rekstur og auðveldara að halda utan um þetta og stjórna þessu á allan hátt en ég vil fá að sjá skýrari markmið upp á borðið. Mér finnst fólk ekki tala nógu skýrt. Nú á ég sjálfur sæti í menntamálanefnd sem áheyrnarfulltrúi og ég býst við því að þegar menntamálanefndin fjallar um þetta frumvarp muni hún kalla til sín ótal aðila að þessu máli, t.d. útvarpsstjóra sem oft hefur verið vitnað í hér og hann muni þá væntanlega útskýra það fyrir okkur sem sitjum í menntamálanefnd hvað það er sem vakir fyrir mönnum. Það hefur einfaldlega ekki verið sagt nógu skýrt frá því.

En ég hlýt að fagna því að hæstv. menntamálaráðherra lesi ræður mínar af áhuga og fylgist svona vel með því sem ég hef sagt um þetta mál. Það er í sjálfu sér mjög jákvætt og vonandi merki um að menntamálaráðherra ætli í framhaldinu að hlusta á það sem stjórnarandstaðan hefur að segja í þessu máli. Hún benti á að rekstur NRK, norska ríkisútvarpsins, hefur verið með miklum ágætum í mörg ár og það má vel hugsa sér að einmitt það að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið gæti verið lendingin í þessu máli en þá verð ég líka að fá að heyra skýrt og skorinort frá stjórnarliðum og frá þeim sem eru hugmyndafræðingarnir á bak við þetta frumvarp, sem við vitum ekki hverjir eru því miður verð ég að segja, hvað það er í raun og veru sem þeir telja sig ætla að ná fram með því að fara þessa leið.