132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:54]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ef það er klofningur hjá stjórnarandstöðunni um hvernig haga eigi lögum um Ríkisútvarpið í framtíðinni þá hlýt ég að spyrja: Hvernig er þá sambúðin á stjórnarheimilinu þegar þetta mál er annars vegar? Hér var í fyrra lagt fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. og þá voru flestir á því, fréttaskýrendur, stjórnmálaskýrendur og jafnvel stjórnmálamenn að það væri Framsóknarflokkurinn sem lægi á bremsunum og vildi ekki fara alla leið að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og þetta væri svona lending stjórnarflokkanna að búa til þetta sameignarfélag sem var frekar kannski loðið hugtak og margir veltu fyrir sér hvað lægi í raun og veru í því. Við fengum að vita það í menntamálanefnd á vordögum að það voru einmitt menn úr Framsóknarflokknum sem höfðu komið að því að semja frumvarpið, menn innarlega úr herbúðum þess stjórnmálaflokks. Það styrkti þá skoðun margra að þetta væri kannski sú leið sem framsóknarmenn vildu fara og þeir væru með þessu, kannski með veikum mætti ég skal ekki segja, að reyna að verja Ríkisútvarpið. Að það væri ótti í herbúðum framsóknarmanna, illur grunur um að kannski vekti fyrir mönnum að einkavæða Ríkisútvarpið og selja það að lokum. En hér erum við hins vegar komin með nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið hf., að það eigi að vera hlutafélag. Þetta segir mér býsna margt um að fæðingarhríðir frumvarpsins hafi verið ansi erfiðar á stjórnarheimilinu.

Frjálslyndi flokkurinn er þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi áfram að vera í ríkiseigu, að það eigi að vera félag í eigu almennings og við stöndum fast við það. Hins vegar er það svo að ég hlýt að líta á þetta með pólitískum raunsæisaugum. Á mínum stutta ferli hér á þingi hef ég lært það að stjórnarmeirihlutinn er vanur að kýla sitt fram, nánast hvað sem það kostar ef út í það fer. Svo ef þeir segja að þetta eigi að vera hlutafélag þá munu þeir náttúrlega reyna að koma því í gegn í krafti meiri hluta síns og það er bara nokkuð sem verður að taka mið af.