132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannast sagna finnst mér það afar dapurlegt hlutskipti Framsóknarflokksins að svíkja gefin fyrirheit varðandi Ríkisútvarpið, bæði á flokksþingum og opinberlega í umræðu. En eitt langar mig að spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason um þegar hann segir að markmiðin með rekstrinum þurfi að vera skýr og ábyrgðin þurfi að vera skýr. Hvað á hann nákvæmlega við með þessu? Vegna þess að ef ég ber saman skilgreiningar í þessum efnum í núgildandi lögum og lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar átta ég mig ekki alveg á hvað hér er átt við. Á hann við að stjórn stofnunarinnar, ígildi núverandi útvarpsráðs, geti rekið útvarpsstjórann sem hefur með lagafrumvarpinu fengið öll völd yfir stofnuninni í sínar hendur? Þessi pólitíska stjórn — því það er rangt hjá hv. þingmanni að klippt hafi verið á hin pólitísku tengsl — stofnunarinnar sem endurspeglar (Forseti hringir.) valdahlutföllin á Alþingi fær núna vald (Forseti hringir.) til að reka æðsta stjórnanda stofnunarinnar.