132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega má bæta stjórnsýsluna í Ríkisútvarpinu. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram tillögur þar að lútandi. Þær tillögur koma ekki fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, þær ganga fyrst og fremst út á að efla einræðisvald innan stofnunarinnar og herða ríkisstjórnartökin á henni vegna þess að það er ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi sem fær núna óskoruð yfirráð yfir stofnuninni og getur rekið einvaldinn innan stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Er það þetta sem Framsóknarflokkurinn kallar skýra ábyrgð? Mig furðar ekki að það hafi kostað talsverða vinnu innan Framsóknarflokksins að komast að þeirri niðurstöðu.