132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um einstaka þætti þessa meingallaða frumvarps sem kemur nú fyrir þingið, allt of lítið breytt frá því að það kom fram fyrir nokkrum mánuðum. Í upphafi máls míns og í framhaldi af þeirri umræðu sem var að ljúka fyrir nokkrum mínútum vildi ég gera afstöðu og viðsnúning Framsóknarflokksins í málinu að umræðuefni.

Fyrir örfáum mánuðum töluðu forustumenn Framsóknarflokksins sig hása úr ræðustól Alþingis og víðar um að ekki kæmi til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, algjör frágangssök af þeirra hálfu og kæmi aldrei til greina að Ríkisútvarpið yrði hlutafélag og þar stæði Framsóknarflokkurinn í lappirnar. Þar væri ekkert til sölu, enginn afsláttur gefinn og hvergi hvikað frá sannfæringu flokksins og þeirri stefnu sem var undirstrikuð og ítrekuð á landsfundi flokksins það árið eða árið áður um að Ríkisútvarpið yrði ekki hlutafélag. Þetta var kannski eitt af fáum stefnumiðum í félagshyggjuranni Framsóknarflokksins sem var eftir þar sem átti að halda vörð um.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn nánast án nokkurs aðdraganda eða útskýringar hvikað frá þessu máli, gefur eftir örfáum mánuðum eftir að sameignarfélag var algert grundvallaratriði í nýrri lagagerð um framtíð Ríkisútvarpsins. Það var algert grundvallaratriði að félagið yrði sameignarfélag en alls ekki hlutafélag. Síðan þá hefur svo sem ekki mikið annað gerst en það að einhvers konar pólitískt öngþveiti virðist ríkja innan Framsóknarflokksins þar sem undanhaldið í öllum málaflokkum virðist vera með þeim hætti og svo handahófskennt að á mann renna tvær grímur um hvað valdi. Þess vegna var verið að spyrja hv. þingmann og forustumann Framsóknarflokksins í mennta- og menningarmálum, Hjálmar Árnason, um af hverju flokkurinn hefði kúvent í afstöðu sinni í þessu prinsippmáli, í algeru grundvallarmáli. Svör hans voru mjög óljós og ég vona að hann komi hér upp á eftir og útskýri það betur. Það mundi henta starfseminni betur, sagði hann, og vitnaði mjög í rekstur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem kom mér líka ákaflega spánskt fyrir sjónir, sá samanburður. En forustumenn Framsóknarflokksins hljóta að útskýra það í 1. umr. um málið af hverju þeir breyttu um stefnu, af hverju undirlægjuhátturinn við Sjálfstæðisflokkinn virðist vera svo botnlaus og gegndarlaus að maður spyr sig alltaf: Hvað er næst? Hvað kemur næst hjá Framsóknarflokknum? Hvar ætlar hann að gefa eftir næst? Hvar verður næsti undansláttur frá meginmálum og pinsippum Framsóknarflokksins í þessu lánlausa samstarfi hans við Sjálfstæðisflokkinn?

En það er margt annað sem vekur athygli og ég vil benda sérstaklega á, og ég vona að það komi skýrt fram í umræðunum. Meðal annars er eitt af því sem skapar mikla tortryggni sá tilgangur að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Fyrir því hafa ekki komið fram nein sérstök rök af hverju það form er valið fram yfir t.d. sjálfseignarstofnun sem fram að þessu hefur verið ákaflega hentugt rekstrarform utan um ýmiss konar almannaþjónustu, skólaþjónustu, öldrunarþjónustu, náttúrulækningaþjónustu í þeirri mynd sem hún er rekin í Hveragerði og víðar. Utan um hvers kyns almannaþjónustu sem er ekki rekin í ágóðaskyni hefur sjálfseignarstofnunarformið gefist mjög vel og saga þess í íslenskri almannaþjónustu er býsna glæsileg, hún er nokkuð góð. Og um það var nokkur sátt virtist vera og þróun í þá veru að ýmiss konar stofnanir á sviði mennta- og heilbrigðisþjónustu, almannaþjónustu hvers konar, sem voru sjálfstætt reknar eins og það heitir voru gerðar að sjálfseignarstofnun þangað til núna hin síðari missiri þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki undan að breyta slíkum stofnunum í einkahlutafélög og hlutafélög. Þess vegna hljótum við að kalla eftir skýrum svörum um af hverju þetta form er valið og þá beinast sjónir okkar að sjálfsögðu að málafylgju stjórnarflokkanna, hægri flokkanna tveggja í þessu máli. Málflutningur þess minni liggur fyrir og vekur mikla furðu af hverju hann beygir svo af leið og af hverju hann gefur svo eftir þessum bænheita Sjálfstæðisflokki í garð hlutafélaga. Helstu forustumenn Sjálfstæðisflokksins á sviði menntamála, menningarmála og efnahagsmála hafa ítrekað flutt yfirgripsmikið frumvarp til laga um sölu á Ríkisútvarpinu. Þar segir t.d., með leyfi forseta, í kaflanum um Rök fyrir frumvarpinu, þar er undirkafli sem heitir Ríkisrekstur — og ég vona að einn hv. flutningsmanna, formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, geri grein fyrir þessari málafylgju á eftir en hann er næstur í ræðustólinn á eftir mér, og hérna gengur inn einn flutningsmanna, hv. þm. Birgir Ármannsson, þessir bænheitu hægri menn geri grein fyrir þessu máli sínu og hvernig það standi gagnvart hinu nýja frumvarpi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og þá mjög ósannfærandi og hjáróma röksemd um að það eigi ekki að selja það, það standi ekki til. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það er enn fremur umhugsunarefni hvers vegna ríkið á að standa í þessum rekstri fjölmiðlunar. Hvers vegna gefur það ekki út ríkisdagblað, ríkistímarit, ríkisbækur,“ — sem það gerir reyndar — „gerir ríkiskvikmyndir og ríkispopptónlist og leggur undir sig netið sem sameinar þetta allt? Það er nýverið búið að hlutafélagavæða ríkissímann og flestir virðast sammála um að selja hann úr ríkiseigu.“

Annars staðar segir hér, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að sölu hlutafjár ríkissjóðs fyrir 1. janúar 2005 og skulu starfsmenn hafa forkaupsrétt …“

Mjög föst röksemdafærsla var fyrir því að selja yrði Ríkisútvarpið og fyrir rekstri þess væru bókstaflega engin rök frekar en fyrir rekstri ríkisdagblaðs eða ríkistímarits o.s.frv. eins og kom fram í tilvitnaðri athugasemd minni áðan sem er í sjálfu sér mjög undarleg líka úr munni sjálfstæðismanna þar sem ríkisrekstur á öllum þessum sviðum er nú í gangi með einum eða öðrum hætti. En það þykir þeim fráleitt og þess vegna hljóta að vakna spurningar um tilganginn með því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og hvort blasi ekki við að næsta skref ríkisstjórnarinnar í málefnum þess verði að selja útvarpið. En áfram með málið.

Það voru nokkur atriði sem sá sem hér stendur vonaðist eftir að sjá í hinu nýja frumvarpi en var ekki að finna í því gamla sem nú er að verða líklega ársgamalt og var flutt á síðasta þingi. Ég var nokkuð sannfærður um að það kæmi fram í þessu endurskoðaða og nýja frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið. Það eru hlutir eins og einhvers konar takmörkun á hlutdeild og umfangi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sem ég held að sé í kringum 30% í dag, örugglega milli 50 og 60% auglýsingamarkaður á sviði ljósvakamiðlunar, mjög umfangsmikið þar og má færa ýmis rök fyrir því að Ríkisútvarpið þurfi og eigi að vera með auglýsingamarkaði hvað varðar aðgengi þeirra sem þar vilja auglýsa, til að koma upplýsingum á framfæri til að eðlileg samkeppni ríki á auglýsingamarkaði á milli ríkisstofnunarinnar annars vegar og hins vegar einkarekinna stöðva á okkar örpínulitla sjónvarpsmarkaði. Hvort ekki hefði átt, og það var mín skoðun, að takmarka þá hlutdeild niður í kannski 15% eða eitthvað svoleiðis, 10%, eða 15–20%, minnka þannig umfangið og skilyrða um leið og hlutverk útvarpsins yrði skilgreint upp á nýtt.

Þá kem ég að meginmálinu af því að það snýst fyrst og fremst um, fyrir utan fjármögnun og rekstrarform, hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar, endurskilgreiningu á almannaútvarpinu og væntanlega pólitíska tilraun til að endurhanna hlutverk og markmið Ríkisútvarpsins þannig að það standi undir nafni sem almannaútvarp en sé ekki meira og minna að dreifa og miðla til okkar aðkeyptu erlendu, ódýru afþreyingarefni, skemmtiþáttum og nákvæmlega sömu sjónvarpsgerð og er að finna á hinum íslensku stöðvunum, Stöð 2, Skjá einum og öðrum stöðvum og svo öllum erlendu stöðvunum sem eru í samkeppni við það. Ríkissjónvarpið hefur að miklu leyti þróast yfir í það að senda út lélegt erlent sjónvarpsefni. Sumt af þessu er sæmilegt, annað lélegt en allt efni sem má finna á öðrum stöðum og vídeóleigum.

Að mínu mati á meginhlutverk sjónvarpsins að vera að standa að í einhverri mynd eða stuðla að framleiðslu og miðlun á íslensku efni sem er t.d. grundvöllur þess að Rás 2 eigi að vera til, sú 22 ára gamla útvarpsstöð, af því að hún að mörgu leyti stendur undir nafni. Hún hefur þróast þannig að hún ein útvarpsstöðva á landinu spilar íslenska tónlist, popptónlist í einhverjum mæli og stendur að mörgu leyti undir gróskunni og framleiðslunni á íslenskri tónlist. Þannig hefur sú stofnun unnið sér sess, unnið sér tilverurétt að sínu mati og þess vegna er það pólitísk ákvörðun hvort hún á að lifa eða deyja. Hérna er í rauninni verið að drepa Rás 2 í skjóli myrkurs með því að skilgreina að Ríkisútvarpið skuli að minnsta kosti senda út eina hljóðvarpsrás og eftirláta síðan stjórnendum Ríkisútvarps, sjónvarps þau pólitísku óþægindi sem kunna að hljótast af því að leggja Rás 2 niður eða selja hana eða hvað sem menn gera. Það er mjög undarlegt. Það á að sjálfsögðu að taka á því skýrt hér að ekki á að eftirláta það stjórnendum af því að það er pólitískt markmið að mínu mati að reka slíka stöð sem er alger grundvöllur að mörgu leyti að spilun á íslenskri tónlist á Íslandi af því að einkastöðvarnar sinna því nánast ekki neitt, nema þá helst þeim flytjendum sem eru gefnir út af sömu samsteypu eins og þetta hefur þróast hjá okkur.

Að mínu mati hefði átt að lögbinda einhvers konar skorður og skilyrði um hlutfall innlends efnis í sjónvarpinu, alveg klárt og kvitt. Það er einn grundvöllur tilveru og tilveruréttar Ríkisútvarpsins að miðla og stuðla að íslensku sjónvarpsefni, stuðla að framleiðslu og miðlun á íslensku efni, að sjálfsögðu á kostnað þess erlenda efnis og þess ódýra rusls sem þar er miðlað af mjög miklum móð og miklu kappi sem aldrei fyrr þessi missirin. Það er sjálfsagt að blanda inn í dagskrána vandaðri erlendri dagskrárgerð á ýmsum sviðum, eitthvað þá sem er ekki á hinum stöðvunum að sjálfsögðu, vönduðum kvikmyndum, vönduðum þáttum, heimildamyndum og ýmis konar öðru efni sem fengur er að og er ekki að finna annars staðar á öðrum stöðvum. En svo er alls ekki. Því vildi ég spyrja, ef hæstv. menntamálaráðherra tekur umræðuna saman í lok umræðunnar seinna í kvöld eða þegar henni verður fram haldið síðar í vikunni, hvort ekki komi til greina að breyta frumvarpinu í þá veru að þar séu sett sérstök skilyrði, sérstakar skorður, skilyrði um framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni og hlutfall innlends efnis í dagskrá sjónvarpsins. Mér finnst þetta mjög mikið atriði, og einnig að skoða, ég vona að nefndin fari í það, að skorður verði reistar við hlutdeild ríkissjónvarpsins á auglýsingamarkaði. Það mætti takmarka það töluvert án þess að svipta stofnunina þeim tekjum algerlega eða kippa henni algerlega út af markaðnum eins og lengi og oft hefur í sjálfu sér verið í umræðunni líka. Það var skoðun margra hér einu sinni en ég held að það væri varhugavert. Það væri í sjálfu sér verra fyrir alla, bæði fyrir auglýsendur og þá sem sækja sér upplýsingar í auglýsingar hvort sem það eru samlesnar auglýsingar í útvarpinu, skjáauglýsingar sem eru mikið notaðar og fínt auglýsingaform eða leiknar hefðbundnar sjónvarpsauglýsingar. Ég held að engin ástæða sé til að svipta stofnunina eða þá sem vilja miðla upplýsingum í gegnum hana aðgangi að því. Ríkisútvarpið er svo öflug stofnun og hefur svo margþættu og merkilegu hlutverki að gegna, er ein af lykilstofnunum í samfélagi okkar og um hana á að standa vörð í þeirri mynd sem hún var hugsuð og í þeirri mynd sem almannamiðlar af hennar sort gera best og sérstaklega af sjálfsögðu með því að miðla af öflugu og vönduðu fréttaefni, fréttatengdu efni og innlendu efni fyrst og síðast.

Það eru mikil vonbrigði að í frumvarpinu er ekkert tekið á skilgreiningum á inntaki, ekkert tekið á því að Ríkisútvarpið stigi skref frá því að vera sá undarlegi og oft vondi blendingur í dagskrárgerð og miðlun sem það er núna yfir í það að verða fyrsta flokks almannamiðill. Í þessu frumvarpi er ekkert tekið á því. Skilgreining á hlutverki og útvarpsþjónustu í almannaþágu, eins og kaflinn heitir, er mjög almenn, mjög almenn og mjög loðin. Engar skorður eru t.d. settar við hlut innlends efnis í dagskrá stöðvanna, sem að sjálfsögðu ætti að gera. Það er algjört grundvallaratriði í tilveru, hlutverki og rekstri, Ríkissjónvarps og Ríkisútvarps.

Hér hefur margt verið rætt. Ekki hafa komið fram nein sannfærandi rök hvað varðar fjármögnun á stofnuninni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi hér áðan um jöfnunaráhrif. Það hefur ekki verið rætt eða útskýrt neitt sérstaklega af hverju nefskattsleiðin er t.d. frekar farin en fjárlagaleiðin — fjárlög sem yrðu þá gerð 5–10 ár fram í tímann svo að Alþingi hefði ekki pólitískt kverkatak á stofnuninni við fjárlagagerð á hverju ári, ekkert frekar en með hækkun eða lækkun á nefskattinum eða því máli. Það vantar sannfærandi rök fyrir því að sú leið sé farin.

Sérstaklega hefur verið rætt um pólitíska stjórnun á útvarpinu, hvort það sé hreinlega markmið hæstv. ráðherra og stjórnvalda að sjónvarpsstjóri verði eftir þessa lagabreytingu einhver pólitískur seppi menntamálaráðherra hverju sinni, sem er að sjálfsögðu fráleitt. Augljóslega er umboð hins nýja útvarpsráðs eða stjórnar hins nýja hlutafélags skert verulega þar sem Alþingi mun kjósa það árlega en ekki til nokkurra ára í senn — menn þurfa að sækja sitt umboð hingað árlega. Það eru líka mjög mikil og djúp vonbrigði af hverju ekki er tekið skarpar á því máli í frumvarpinu. Eins og ég sagði áðan batt ég miklar vonir við að frumvarpið kæmi mikið breytt frá hæstv. menntamálaráðherra eftir það afhroð sem frumvarpið frá því í fyrra galt.

Viðsnúningur Framsóknarflokksins í þessu máli vakti að sjálfsögðu mestu undrunina, þessi undirlægjuháttur gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem viðist vera að ná nýjum hæðum í stjórnarsamstarfi flokkanna tveggja. Fyrir mig sem félagshyggjumann, sem hef alltaf litið til Framsóknarflokksins sem vænlegs samstarfsaðila vinstri stjórnar, er ömurlegt að horfa upp á hve flokkurinn er rúinn pólitískum prinsippum. Sjálfur hélt ég að flokkurinn mundi aldrei ganga svo langt að gefa eftir í málefnum Ríkisútvarpsins. Þar hélt ég að Framsóknarflokkurinn mundi nú láta brjóta á. En aldeilis ekki og fullkomlega án nokkurs aðdraganda eða nokkurra útskýringa gefur Framsóknarflokkurinn eftir þar líka.

Það má nánast segja að það sé hetjulegt af hv. þm. Hjálmari Árnasyni að taka þátt í umræðunni þó að hann hafi horfið hér úr þingsal um leið og ræðu hans og andsvörum var lokið, en aðra framsóknarmenn hefur ekki verið að sjá. Hljóta menn að kalla eftir því við hæstv. forseta að hann beiti áhrifavaldi sínu í þá veru að þeir sem bera ábyrgð á þessu hlutafélagavæðingarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið mæti hér í salinn og taki þátt í þessari umræðu með öðrum hætti en til málamynda eins og um var að ræða hér áðan. Hv. þm. Hjálmar Árnason útskýrði ekki að neinu leyti viðsnúning flokksins. Fyrir nokkrum mánuðum hefði mátt skilja að flokkurinn hefði lagt pólitískt líf ríkisstjórnarinnar að veði fyrir að Ríkisútvarpinu yrði ekki breytt í hlutafélag. Þá var talað um einhvers konar undarlega sameignarstofnun sem einn og sami aðilinn átti að eiga með sjálfum sér — það var mjög undarleg útgáfa af þessu öllu saman — en aldrei yrði það hlutafélag, aldrei nokkurn tíma. Það var á þeim að heyra þá. Þeir töluðu sig hása um þetta mál í fyrra og voru mjög stoltir af því að hafa nú beygt Sjálfstæðisflokkinn, beygt bænheitu hægri mennina sem vildu selja útvarpið — þeir fóru hér hver upp eftir öðrum að réttlæta þá afstöðu sína að Ríkisútvarpið ætti að vera sameignarstofnun en ekki hlutafélag. Þetta var staðan fyrir nokkrum mánuðum en nú er allt breytt og Framsóknarflokkurinn horfinn úr salnum rétt eins og hann er að þurrkast út í skoðanakönnunum. En við hljótum að skora á þá hv. þingmenn að mæta hér í salinn og standa fyrir máli sínu.