132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:51]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. kom víða við í ræðu sinni. Það mátti heyra um ýmis atriði sem hann var ósáttur við en það var hins vegar erfiðara að greina hvaða hugmyndir og stefnu hann hafði varðandi Ríkisútvarpið svona fyrir utan það að það ætti að flytja gott efni, sem ég held að allir geti verið nokkurn veginn sammála um. Hins vegar getur verið erfitt að tryggja það beinlínis með löggjöf að Ríkisútvarpið flytji gott efni. Í því sambandi þarf frekar að tryggja gott rekstrarumhverfi og gott rekstrarfyrirkomulag. Með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram er verið að stíga stórt skref í þá átt, rekstrarform og rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins verður betra og skilvirkara en það er núna.

Hv. þingmaður vék nokkrum orðum að afstöðu minni og tveggja annarra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins og er rétt að bregðast við því. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að ég hef lengi haft uppi efasemdir um að ríkið reki fjölmiðil. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni á löngu tímabili þannig að sú afstaða liggur alveg fyrir. Staðan er hins vegar sú að ekki er pólitísk samstaða um að stíga slíkt skref og þá finnst mér sjálfsagt að styðja tillögur sem gera ráð fyrir betra og skilvirkara rekstrarformi og fyrirkomulagi en það sem við búum við núna. Á því byggi ég stuðning minn við þetta frumvarp.