132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat ekki skilið þingmanninn á annan hátt en þann að hann væri með einhverjum hætti fallinn frá sínum fyrri hugmyndum um að selja stofnunina — hann sagði að þeir nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu orðað hugmyndir í þá veru. Þeir hafa ítrekað flutt um það frumvarp til laga. Það væri fróðlegt að vita hvort þeir eru fallnir frá þeim tillögum. Ekki var svo að skilja á þeim öllum en það á sjálfsagt eftir að koma betur fram í umræðum á eftir.

Það skiptir að sjálfsögðu meginmáli hvert ráðandi aðilinn í stjórnarsamstarfinu er að fara, ekki síst þar sem ekki hafa komið fram neinar skýringar á því af hverju hlutafélagaformið er valið umfram t.d. sjálfseignarstofnun. Fram að þessu hefur sjálfseignarstofnunarformið af mörgum verið talið mjög hentugt rekstrarform utan um hvers konar almannaþjónustu sem ekki er rekin í hagnaðarskyni, jafnvel ákjósanlegasta rekstrarformið. Af hverju er sú leið þá ekki farin? Því hefur enginn stjórnarliðanna svarað að svo komnu máli nema með því að vísa í það að hlutafélagaformið sé ágætt líka og komi stundum ágætlega út í rekstri flugstöðva og ýmissa annarra fyrirtækja víða um land. Ég kalla eftir svari við þessu. Þetta er grundvöllurinn fyrir vitrænni umræðu um rekstrarform stofnunarinnar. Rekstrarformið er þó ekki aðalatriðið í þessari umræðu, heldur fyrst og fremst þau djúpstæðu vonbrigði sem það eru að ekki skuli hafa verið farið í vinnu við að skilgreina markmið og inntak stofnunarinnar frá því frumvarpi sem flutt var fyrir nokkrum mánuðum.