132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[19:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að þingmaðurinn sé við fulla heilsu þótt hann sé svona minnistæpur. Ef þetta er ekki efnisleg umræða þá veit ég ekki hvað. Þegar þessi málefnalegi þingmaður Sjálfstæðismanna vatt sér að efninu þá var það um mjög málefnalega spurningu úr mjög málefnalegri ræðu minni um Ríkisútvarpið. Ef sjónvarpið hættir að sýna ruslið, sagði hann, hvað þá? Svona efnislega og umorðað. En ef það er ekki markmiðið með þessari umræðu, hvort við eigum að halda úti ríkisreknu sjónvarpi á annars flokks erlendu efni eða fyrsta flokks almannamiðli sem sýnir að einhverju skilgreindu lágmarki innlent efni, þá veit ég eiginlega ekki um hvað umræðan á að snúast. Það er algjört grundvallaratriði. Rekstrarformið og hvort við notum nefskatt, hvort förum með stofnunina á fjárlög eða notum afnotagjöldin eru einungis aukaatriði samanborið við hvort stofnunin eigi almennt að vera til eða ekki. Það er það sem skiptir öllu máli. Það er ekki markmið að reka ríkisrekna vídeóleigu. Það er ekki markmið að halda úti ríkisreknum fjölmiðli sem sýnir að stærstum hluta erlent efni sem fæst nær máli hvað varðar gæðin. Þó sumt af því efni sé ágætt er það meira og minna að finna á öðrum sjónvarpsstöðvum. Það er hægt að nálgast slíkt efni auðveldlega eftir ýmsum leiðum sem stóðu ekki til boða eða voru færar fyrir bara fáeinum missirum síðan, ég tala nú ekki um fyrstu 20–25 ár Ríkisútvarpsins þegar ekki voru aðrar stöðvar í boði. Nú er líka hægt að ná aragrúa erlendra miðla í gegnum gervihnetti og með ýmsum öðrum hætti. Þannig að þetta er hin efnislega umræða sem við eigum að sjálfsögðu að taka (Forseti hringir.) við hinn hv. málefnalega þingmann sjálfstæðismanna um þetta mál.