132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[19:02]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekkert svar við spurningunni sem ég lagði fram þess efnis hvernig við ættum að horfa á þetta heildstætt. Ég vil taka fram að hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir kom málefnalega að þessum þætti tekjuliðar stofnunarinnar. Ég átti eiginlega von á að hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson kæmi inn á það sama, þ.e. nefskattinn, auglýsingarnar og hvort við ættum að hafa þetta með einhverjum öðrum hætti. Mér finnst bara ekki hægt að kasta því fram hvernig efnið eigi að vera, að það megi ekki vera svona eða hinsegin. Menn þurfa að horfa á tekjuöflunina heildstætt. Mér fannst hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir spyrja rökrétt hér áðan í ræðu sinni. Ég vil koma inn á það sama og hún kom inn á og heyra hvort það er samhljómur hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar hvað þetta varðar. Ef ég fengi svar um það.