132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[19:05]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér hefur verið nokkuð lífleg umræða um þetta mikilvæga mál. Ég held að það sé býsna mikilvægt að við áttum okkur á því að hér er auðvitað um mjög mikilvægt mál að ræða, þ.e. Ríkisútvarpið sjálft. Um stofnunina hafa að vísu oft og tíðum leikið töluvert kaldir vindar en þó hefur verið mjög víðtæk samstaða um mikilvægi hennar þótt menn hafi stöku sinnum deilt á einstaka efni eða efnistök og form. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki hafa viljað taka í útrétta sáttarhönd svo menn gætu verið í sama takti við undirbúning málsins.

Ég vil í upphafi máls míns vitna orðrétt í ummæli hæstv. menntamálaráðherra, með leyfi forseta:

„En ég legg ríka áherslu á það að við vinnum þetta í samvinnu á milli allra stjórnmálaflokka, við reynum að haga öllum undirbúningi þannig að það sé ekkert hægt að deila mjög á undirbúninginn og aðferðafræðina, þannig að við stöndum uppi síðan með gott frumvarp um fjölmiðla og þar á meðal eignarhaldið.“

Frú forseti. Hér er hæstv. menntamálaráðherra að ræða um hið svokallaða og margumrædda fjölmiðlafrumvarp. Við höfum margsinnis bent á að eðlilegt væri að Ríkisútvarpið væri hluti af þeim pakka, þ.e. að frumvarpið um Ríkisútvarpið væri flutt að minnsta kosti samhliða slíku frumvarpi. Þessi orð sem hæstv. menntamálaráðherra lét falla varðandi fjölmiðlafrumvarpið eiga að mínu mati alveg jafn vel við um Ríkisútvarpið og ekki síður. Því miður virðist ríkisstjórnin eingöngu hafa lært það af öllu því máli, fjölmiðlamálinu, að það væri eingöngu í því einstaka máli sem væri vænlegt að hafa samstöðu og reyna að ná friði. En ég held að ríkisstjórnin hefði þurft að læra örlítið í yfirfærslu, þ.e. að færa þann lærdóm yfir á fleiri svið. Það er ekki hægt að segja að Ríkisútvarpið sé víðs fjarri fjölmiðlalögum, það hefði því að minnsta kosti mátt láta á reyna að ná samstöðu um jafnmikilvægt mál og hér liggur fyrir.

Það er auðvitað ekki útilokað ef allir leggja sig fram að það sé hægt að ná samstöðu um bætt frumvarp, þ.e. að það frumvarp sem hér liggur fyrir verði bætt í meðförum menntamálanefndar. Það væri æskilegt að hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir áður en umræðunni lýkur, að það standi ekkert á því af hálfu ráðuneytisins, hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnarinnar, að gengið væri í það verk að sníða af frumvarpinu ýmsa agnúa og bæta í það öðru þannig að um frumvarpið geti orðið rík samstaða. Ég held að það sé ekki gott, hvorki fyrir stofnunina né ríkisstjórnina að frumvarp um jafnmikilvæga stofnun verði afgreitt hér í þinginu með bullandi ágreiningi. Þetta er þannig málefni að við eigum að geta náð víðtækri sátt um það. Það er eðlilegt að við tökumst á um ákveðna hluti og að það verði látið á það reyna í menntamálanefnd hvort einhver vilji sé til þess að lagfæra það sem hér má betrumbæta.

Það er eðlilegt að rifja örlítið upp ákveðna hluti sesm hér hafa komið fram, m.a. í viðamikilli ræðu hv. þingmanns Marðar Árnason, og þá vil ég fyrst leggja áherslu á það sem við í Samfylkingunni höfum lýst sérstakri ánægju með í þessu frumvarpi. Það er í fyrsta lagi að opnað er á möguleika á skipulagsbreytingum á Ríkisútvarpinu sem er auðvitað afskaplega mikilvægt vegna þess að stofnunin þarf að þróast og hafa möguleika á breytingum í takt við það sem er að gerast í samfélaginu. Í öðru lagi eru lagabreytingar á dagskrá sem gera það að verkum að dagskráin verður í höndum starfsmanna en ekki útvarpsráðs. Hér er um gífurlega mikilvægar breytingar að ræða sem við styðjum heils hugar og teljum í raun og veru að hefðu fyrir margt löngu átt að vera komnar til framkvæmda. Kannski er ástæðan sú að ríkisstjórnarflokkarnir hafa átt í miklum erfiðleikum með að ná saman. Það er stundum eins og sérkennileg trúarbrögð séu ríkjandi í báðum flokkunum. Á tímabili virtist vera eitthvert framsóknarform á rekstrarforminu sem öllu átti að ráða. Framsóknarflokkurinn var býsna ánægður með að hafa lagt hinn stóra samstarfsflokk að velli í því máli en hefur síðan fengið það allt saman í bakið og liggur nú kylliflatur fyrir trúarbrögðunum hinum megin frá, þ.e. að það þurfi að vera hf. á öllu og að ekki sé hægt að leysa neinn vanda öðruvísi en að háeffvæða allt. Í þriðja lagi, en það hefur líka komið fram að við lýsum yfir sérstakri ánægju með þá tilraun sem gerð er með að yfirmaður fái svigrúm til að stjórna og beri um leið ábyrgð. Í stofnun eins og Ríkisútvarpinu er mikilvægt að til staðar sé svigrúm fyrir stjórnanda til að taka alls konar ákvarðanir og að hann beri síðan ábyrgð á ákvörðunum sínum.

Í stuttu máli er það þetta sem er hvað jákvæðast í frumvarpinu og skiptir miklu máli. Það eru einnig býsna viðamiklar og stórar athugasemdir, þær helstu komu einnig fram í ræðu hv. þingmanns Marðar Árnasonar. Það er í fyrsta lagi að áfram er pólitísk stjórnun á Ríkisútvarpinu ef miðað er við þetta frumvarp. Það er auðvitað gífurlegur galli að stjórn í stofnuninni eða hlutafélaginu eins og það er nefnt í frumvarpinu, sé kosin til eins árs í senn í hlutfallskosningu hér í þinginu. Þetta þýðir að ríkisstjórnarmeirihlutinn hverju sinni hefur meiri hlutann á sínu valdi, ef við getum orðað það sem svo. Stjórnin hefur síðan mjög víðtæk völd, m.a. gagnvart því að reka eða ráða útvarpsstjóra og það má draga þá ályktun m.a. þar sem árið er nú fljótt að líða, að það sé oft auðvelt að taka í hnakkadrambið á einhverjum sem ekki keyri hina réttu línu, sem væntanlega er þá ákveðin af þeim sem með hlutabréfið fer, þ.e. hæstv. menntamálaráðherra. Þarna er hægt að fara ýmsar aðrar leiðir til að bæta þetta. Margar einfaldar sem þarf hins vegar að ræða og velta fyrir sér og athuga hver væri best. Þarna væri t.d. hægt að bæta inn í stjórnina tveimur fulltrúum frá starfsmönnum, þ.e. það væri þá tryggt að ekki væri endilega sami meiri hluti í stjórninni og á þinginu. Nú eða að kjósa stjórnina til lengri tíma þannig að hún væri t.d. ætíð kosin á miðju kjörtímabili og væri í fjögur ár. Eða að hún væri ekki í takt við kjörtímabilið, þannig að hún væri í fimm ár, sjö ár eða eitthvað þess háttar, þannig að þessi skýru tengsl, þessi ofurtengsl við meiri hlutann á Alþingi hverju sinni væru rofin.

Í öðru lagi er athugasemd sem vegur líka býsna þungt. Nú virðist staðan vera sú að Ríkisútvarpið eigi að fara í enn harðari samkeppni en áður á auglýsinga- og kostunarmarkaði. Við höfum hins vegar talið að það ætti að reyna að draga úr samkeppni. Fara úr þessum u.þ.b. 30% í tekjunum niður í kannski 10–15%. Þá væri stofnunin ekki eins háð þessu. En miðað við það sem fram kemur í úttekt eða réttara sagt umsögn fjármálaráðuneytisins þá blasir það t.d. við að eigið fé hlutafélagsins í upphafi verður nesikvætt, strax á fyrsta degi, sem segir okkur að fjárhagsstaða stofnunarinnar verður ekki mjög styrk. Stofnunin tekur við öllum skuldum, m.a. lífeyrisskuldbindingum upp á 2,6 milljarða sem þýðir að það þarf að borga af því skuldabréfi sem um hefur verið samið um rúmlega 200 millj. á hverju ári. Að vísu, það má ekki gleyma því að það er verið að spara ákveðin útgjöld, þ.e. rúmlega 100 millj. með að taka þann hluta í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem Ríkisútvarpið hefur haft, þ.e. 25% út, en þetta er það eina sem hægt er að sjá að verði dregið úr rekstrarkostnaði. Ef þessi stofnun á að hefja leikinn með neikvætt eigið fé, þá virðist ekki annað blasa við en að stofnunin þurfi að fara með auknum krafti inn í samkeppnina á auglýsinga- og kostunarmarkaði. Það er hreinlega hættulegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og því mikilvæga hlutverki sem það hefur, þ.e. að vera almannaútvarp, að vera svo háð slíkum tekjum.

Það er hreinlega hættulegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og því hlutverki sem mikilvægast er, almannaútvarpi, að vera svo háð slíkum tekjum. Í þriðja lagi höfum við gagnrýnt þá leið eða þá einstefnu sem horft er til varðandi rekstrarformið, þ.e. háeffið. Við teljum að skoða þurfi sjálfseignarstofnunarformið og skiljum í raun og veru ekki hvers konar trúarbrögð það eru að það megi hreinlega ekki nýta slíkt rekstrarform heldur þurfi, að mati Sjálfstæðisflokksins og nú nýlega Framsóknarflokksins einnig, að háeffvæða allar þessar stofnanir. Það er auðvitað ljóst að sporin hræða, það eru býsna fá dæmi um að ríkisstofnun sem breytt hefur verið í hlutafélag hafi ekki síðan verið seld í kjölfarið.

Hér kom upp áðan hv. þm. Birgir Ármannsson sem hefur verið einn af ötulustu talsmönnum þess að selja beri þessa stofnun. Hann taldi að frumvarpið sem hér liggur fyrir væri ekki skref í þá átt en taldi sig samt sem áður vera mikinn stuðningsmann frumvarpsins. Skýringin á orðalagi 1. gr. er kannski sérstaklega vegna þessa hóps í flokki hæstv. menntamálaráðherra, þar sem segir „sala félagsins eða hluta þess“, en það eru auðvitað til frægar samþykktir í Sjálfstæðisflokknum um að selja beri t.d. Rás 2. En samkvæmt frumvarpinu er allt slíkt óheimilt og verður að fara í gegnum Alþingi ef vera kynni að menn teldu hugsanlegt að selja eða gera samninga við einhverja um ákveðna þætti í stofnuninni. Hér er augljóslega verið að setja einhvern varnagla gagnvart einhverjum öflum í Sjálfstæðisflokknum til að reyna að gera þetta trúverðugra, væntanlega í augum Framsóknarflokksins og hann hefur greinilega gleypt við þessu öllu saman. En það liggur alveg ljóst fyrir að ekki hefði verið þörf á að setja þetta inn. Þetta er einhver varnagli sem talið hefur verið mjög nauðsynlegt að setja.

Það er eðlilegt, frú forseti, fyrst ég nefndi Framsóknarflokkinn að minnast hér örlítið á ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem fór hér mikinn á ýmsum sviðum en býsna lítinn á öðrum. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður nefndi hér frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra um opinber hlutafélög og taldi reyndar að það væri tengt saman við þetta frumvarp. Það væri æskilegt að hæstv. menntamálaráðherra staðfesti þá skoðun formanns þingflokks Framsóknarflokksins að þessi tvö frumvörp skuli unnin saman, að frumvarp viðskiptaráðherra sem lagt var fram, ef ég man rétt, nokkru fyrir jól en hefur ekki verið mælt fyrir enn eigi að afgreiðast samhliða þessu frumvarpi þannig að það sé tryggt að þau ákvæði sem þar eru inni eigi að gilda um það hlutafélag sem hér er stefnt að að stofna. Að vísu heyrðist mér hv. þingmaður ekki vera með innihald frumvarps hæstv. viðskiptaráðherra algerlega á hreinu og hafi að einhverju leyti ruglað því saman við innihald frumvarps frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur o.fl. um svipað málefni, þar sem m.a. er fjallað um að upplýsingalög gildi einnig um opinber hlutafélög en slíkt vantar algerlega í frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra. En hv. þingmaður talaði einmitt um það að ef frumvarpið yrði samþykkt með þeim ákvæðum að upplýsingaskyldan lægi fyrir væru menn kannski komnir býsna nálægt því að geta náð saman um þetta mál.

Ég lýsi enn og aftur eftir því að hæstv. menntamálaráðherra staðfesti þennan skilning formanns þingflokks Framsóknarflokksins að þessi frumvörp verði rædd samhliða og afgreidd samhliða í þinginu. Það hlýtur að þýða að frumvarp hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur o.fl. verði einnig rætt samhliða og þá eru auðvitað komnir upp ýmsir fletir á að menn geti hugsanlega lagfært þetta frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. á þann veg að möguleiki sé á að ná nokkuð víðtækri sátt um málið. En til þess að það sé einhver möguleiki er algert lykilatriði að trúarbrögð um formið verði sett til hliðar. Hv. þm. Mörður Árnason, ef ég man rétt, lýsti því sérstaklega yfir að t.d. hjá okkur í Samfylkingunni væru engin trúarbrögð um að ekki mættu vera hlutafélög um eitt eða neitt. Víðs fjarri. Við höfum opnað á það á nokkrum sviðum að hlutafélag geti komið til greina en við höfum verið með alveg klár skilyrði um það. Frumvarpið sem ég minntist á áðan, frá formanni okkar, er auðvitað dæmi um að við teljum að þessi hlutafélög eigi að vera til en að um þau eigi að gilda ákveðnar reglur. Við leggjum mikla áherslu á það.

Frú forseti. Það er ýmislegt fleira sem við gætum tekið á varðandi þetta frumvarp. Hér hefur aðeins verið minnst á það og hv. þm. Kjartan Ólafsson kvartaði yfir því að ekki væri rætt meira um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég sagði áðan að ég hefði ákveðnar áhyggjur af því hvernig þessu félagi væri ætlað að fara af stað með afskaplega lítinn heimanmund. Við könnumst við að oft hefur verið staðið allt öðruvísi að þegar stofnunum hefur verið breytt á þennan hátt. Þá hefur mjög gjarnan verið klippt á alls konar hala sem stofnunum hafa fylgt, t.d. lífeyrisskuldbindingar o.s.frv. En hér er um mjög miklar skuldir varðandi lífeyrisskuldbindingar að ræða. Það er því eðlilegt að maður hafi ákveðnar áhyggjur af þessu. Varðandi fjármögnunina er auðvitað ljóst að menntamálanefnd hlýtur að fara vel yfir þann þátt.

Það blasir við að flestar mögulegar leiðir hafa einhverja galla en um leið að sjálfsögðu einhverja kosti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór á síðasta þingvetri býsna vel yfir alla þessa möguleika og benti á kosti þeirra og galla. Það er einmitt þess vegna sem margt bendir til að trúlega væri farsælast að hafa einhverja blöndu á fjármögnuninni, þ.e. að hún væri ekki eingöngu bundin við eitthvað eitt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. nefskattsleiðina. Sú leið kemur vissulega til greina en hefur mikla galla, eins og kom fram í andsvari hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, þar sem hún getur lagst mjög misjafnlega á fjölskyldur sem dæmi. Fjárlagaleiðin, þ.e. að setja stofnunina inn á fjárlög er auðvitað ein leið sem hlýtur að verða skoðuð mjög alvarlega. En það er örugglega mikilvægt ef sú leið verður farin að hafa einhverja aðra leið til hliðar þannig að stofnunin verði ekki algerlega háð fjárlögunum, þó svo að vissulega sé hægt að gera samning til nokkuð margra ára til að tryggja að ekki væri verið að refsa stofnuninni eða ef menn teldu ástæðu til að verðlauna hana fyrir eitthvað ákveðið sem hún hefur ýmist sinnt vel eða illa. Hér þarf auðvitað að fara vandlega yfir málið og ég endurtek að ég tel að það sé vænlegast að fara fleiri en eina leið í því sambandi.

Frú forseti. Ég sé að tími minn styttist óðum. Eitt atriði er líka mjög mikilvægt þó að það snúi ekki endilega beint að innihaldi þessa máls en það snýr að starfsmönnum. Það vekur athygli mína að á bls. 10 í frumvarpinu eða í greinargerðinni segir: „Tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, sbr. nánar ákvæði til bráðabirgða II.“ Ég leyfi mér að efast um að þetta standist algjörlega og nefni í því sambandi veruleg lífeyrisréttindi sem margir starfsmenn þarna hafa aflað sér. Sérstaklega á ég þar við ákvæði sem tilheyrir B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er hin svokallaða eftirmannsregla, þ.e. þegar tekið er viðmið af eftirmanni starfsmanns í því starfi sem hann gegndi í ákveðinn tíma. Mér sýnist sú regla falla brott, þ.e. ef viðkomandi maður á t.d. eftir að fara í betur launað starf en hann er í í dag geti starfsmaður ekki tekið viðmið af því eins og reglur gera ráð fyrir nú.

Það er nauðsynlegt að minnast á eitt í viðbót áður en ég lýk máli mínu. Það er varðandi almannaútvarpið og þær litlu skilgreiningar á því sem koma fram í 3. gr. frumvarpsins. Þar sakna ég þess fyrst og fremst að ekki skuli vera einhver ákvæði um hversu hátt hlutfall af innlendu efni eigi að vera í þessari menningarstofnun. Það er okkur auðvitað afskaplega mikilvægt að það sé tryggt á einhvern hátt. Það er ekki bara mikilvægt vegna stofnunarinnar sem slíkrar heldur líka vegna alls þess sem verið er að gera í þeirri menningu sem snertir dagskrárgerðina. Við höfum heyrt hugmyndir ýmissa um hvernig megi standa að þessu. Ég held að það sé eðlilegt að við skoðum það sérstaklega í menntamálanefnd hvort ekki sé rétt að setja ákvæði um þetta þannig að þetta hlutverk almannaútvarpsins sé gulltryggt í þeim lögum sem hér verða væntanlega, miðað við áform ríkisstjórnarinnar, samþykkt fyrir vorið.

Frú forseti. Vissulega væri hægt að taka á mun fleiri málum en tími minn leyfir það ekki. Ég mun að sjálfsögðu skoða hvort ástæða sé til að halda aðra ræðu þegar líður á kvöldið. Ég ítreka það enn og aftur að menntamálanefnd verður að gefa sér góðan tíma til að fara yfir málið, senda það víða til umsagnar og kalla á ýmsa gesti til að fara yfir ýmsa þætti þannig að reynt verði til þrautar að bæta (Forseti hringir.) það frumvarp sem hér liggur fyrir.