132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:01]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hv. þingmanni fyrir að stíga hér upp í pontu með bindi í þetta skipti. Miklar framfarir af hans hálfu. (Gripið fram í.) En ég ætla nú að víkja að þeim spurningum sem hann varpaði að mér. Hv. þingmaður (Gripið fram í.) sakaði mig um að vera sérstaklega dramatískur vegna þess að ég talaði um dauðann í minni ræðu. Ég var nú bara að vísa í það sem útvarpsstjóri hefur skrifað um þetta mál, það var hann sem sagði að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun. Ég var nú bara að vísa það sem útvarpsstjórinn segir um þá leið sem flokkur hv. þingmanns leggur til að farin verði varðandi rekstur Ríkisútvarpsins.

Ég vék að mínum prívatskoðunum, það er alveg rétt. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi nú vikið að þeim hér í andsvari áðan við hv. þm. Hjálmar Árnason þannig að mér fannst rétt að sýna honum þá virðingu, hv. þingmanni, að reifa mínar prívatskoðanir til málsins. Ég hygg að ég hafi skýrt út skoðanir mínar varðandi ríkisvaldið og fjölmiðlarekstur. En ég verð að mótmæla því sem kom hér fram í máli hv. þingmanns um að Ríkisútvarpið hefði verið í fjársvelti. Hann spurði hvort ég vissi ekki af því. Ég verð að segja að fjölmiðill sem starfar á samkeppnismarkaði sem fær 2,3 milljarða í forskot umfram aðra fjölmiðla á þeim markaði í formi afnotagjalda sem að njóta lögveðs í öllum sjónvarpstækjum landsmanna, slíkur fjölmiðill er ekki fjársveltur. Þar fyrir utan aflar hann sér, held ég, 730 millj. kr. í formi auglýsingatekna og 92 millj. kr. í formi kostunar. (Forseti hringir.) Þetta er ekkert fjársvelti og komist fjölmiðillinn ekki af með þetta (Forseti hringir.) verður hann náttúrlega að sníða sér stakk eftir vexti.