132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ein lítil leiðrétting. Það er misskilningur hjá hv. þm. Sigurði Kára að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji ekki gera breytingar á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Við höfum sett fram tillögur í frumvarpsformi þar að lútandi um breytta stjórnsýslu sem gerir hana markvissari og í senn lýðræðislegri. Við erum einnig með tillögur um breytta fjármögnun Ríkisútvarpsins svo annað dæmi sé tekið. Hlutafélög geta verið ágæt í sínu rétta umhverfi. Hvers vegna? Einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi gerir hlutafélagaformið það auðvelt að færa eignarhluti til. Í stað þess að eigendur þurfi að selja fyrirtæki á markaði í einum bita opnar hlutafélagaform inn á meiri möguleika á tilfærslu á eignum. Í annan stað getur hlutafélagaformið verið gott ef opna á fyrir aðhald frá hluthöfum, aðhald á markaði. Hvers vegna? Jú, að þeir sem eigi fyrirtækið geti þar reist kröfur á hluthafafundum og með eftirliti um að jafnvel verði unnið að því að tryggja þeim hámarksarð af þeirra eign. Þetta eru kostirnir við hlutafélagaformið. Hins vegar er það óskiljanlegt að búa til hlutafélag þar sem hluturinn er einn og þeir kostir sem liggja að baki hlutafélagshugsuninni eru ekki fyrir hendi. Ég skil þá mætavel sem vilja gera, hvort sem er þessa stofnun eða aðrar, að hlutafélagi til að selja þær eða færa þær út á markaðinn. Það er skiljanlegt. Þetta er hins vegar fullkomlega óskiljanlegt vegna þess að þetta nýtir ekki þá kosti sem hlutafélagaformið býður upp á.