132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:08]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ósköp vel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur um ýmsar breytingar á Ríkisútvarpinu. En ég get ekki séð að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi lagt til breytingar á því rekstrarformi sem Ríkisútvarpið er rekið í. Það kom beinlínis fram í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman að svo væri ekki. Að Vinstri hreyfingin – grænt framboð legði til óbreytt rekstrarform. Hlutafélagaforminu fylgja ýmsir aðrir kostir en það sem varðar tilfærslu á eignum. Við vitum það líka að hlutafélagaformið getur hentað mjög vel í rekstri þar sem hluthafinn er einn. Hefur það t.d. verið talið sérstaklega óheppilegt fyrir Íslandspóst að hafa þar einn hluthafa? Eða Flugstöð Leifs Eiríkssonar? Ég hygg að ríkið sé eini hluthafinn þar. Aðalatriðið er að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er verið að einfalda mjög rekstur þess og yfirstjórn. Þá mun yfirstjórn Ríkisútvarpsins fara eftir því sem segir í hlutafélagalögum sem gríðarleg reynsla er komin á og við þekkjum og atvinnulífið þekkir og allir þeir sem þar hafa starfað. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og miklu betur en sjálfseignarstofnunarformið mundi gera. Ég hygg að ef Ríkisútvarpinu yrði breytt í sjálfseignarstofnun þyrfti að setja sérlög um Ríkisútvarpið og (Forseti hringir.) starfsemi þess sem sjálfseignarstofnunar.