132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er sjálfsagt að íhuga hvernig þau sérlög yrðu. Sjálfsagt að íhuga þann kost. Ég held að það hafi ekki verið skynsamlegt að gera Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hlutafélagi. Ég hefði haldið að sannir markaðssinnar, sannir samkeppnissinnar, frjálshyggjumenn, hefðu valið aðra hugsun, haft skelina, skurnina í eigu ríkisins og þá einkavætt innvolsið ef menn á annað borð eru á þeim buxunum. Ég held að þetta hafi ekki verið hyggilegt. Ég held nefnilega að menn séu að fara út á þessa braut að vanhugsuðu máli í allt of mörgum tilvikum. Því miður held ég að það sé að gerast. Ég held að það hafi heldur ekki verið hyggilegt varðandi Íslandspóst. Það er alveg rétt að við erum ekki að leggja til að rekstrarforminu verði breytt í þeim skilningi að stofnunin verði ekki opinber stofnun, við erum á því máli. En við gerum hins (Forseti hringir.) vegar tillögur um grundvallarbreytingar á starfseminni til að ná þeim markmiðum sem við eigum öll í sameiningu að vera að ræða í stað (Forseti hringir.) þess að gera formið að trúaratriði eins og ríkisstjórnin gerir.