132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:19]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. á þskj. 517. Það er mál 401. Það hafa verið afar frjóar og góðar umræður um þetta mál í dag og munu þær án ef halda áfram. Gríðarlega mikið af góðum athugasemdum hafa komið frá stjórnarandstöðunni við þetta mál sem hæstv. menntamálaráðherra lagði hér fram.

Við vitum það öll og erum sammála um það að mikilvægt er að breyta lögum um Ríkisútvarpið og um það hefur verið þó nokkur sátt og lengi verið eftir því kallað til þess að Ríkisútvarpið eigi hægar um vik að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við í dag. Fjölmiðlaumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og því mikilvægt að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Því hefði verið skynsamlegast og best að taka umræðuna um RÚV samhliða umræðunni um ný fjölmiðlalög. Það hefur farið fram mjög djúp og mikil umræða, þverpólitísk, í svokallaðri fjölmiðlanefnd um ástandið á fjölmiðlamarkaðnum. Því hefur maður undrast hvers vegna Ríkisútvarpið og málefni þess og hlutverk og framtíð hafi ekki verið rædd í því samhengi.

Virðulegi forseti. Um frumvarpið sem hér liggur fyrir verð ég að segja að það veldur gríðarlegum vonbrigðum. Margt í því veldur því að maður verður fyrir vonbrigðum eftir allan þann tíma sem vinna við þetta mál hefur tekið. Ég vil tæpa hér á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi veldur mestum vonbrigðum að hinum beinu pólitísku áhrifum á stjórn Ríkisútvarpsins sem hafa tíðkast hingað til er gefið framhaldslíf. Þessum pólitísku áhrifum er gefið framhaldslíf í frumvarpinu. Við vitum að á undanförnum árum hefur skipan útvarpsráðs og samsetning þess verið gagnrýnd harðlega og hef ég og fleiri tekið undir þá gagnrýni. Þess vegna veldur það gríðarlegum vonbrigðum að sjá það hér að stjórn hins nýja hlutafélags, Ríkisútvarpsins hf., eigi að vera fimm manna stjórn hlutfallskosin frá Alþingi. Þetta þýðir í raun að þarna er bara verið að fækka í gamla útvarpsráðinu, þ.e. það er verið að fækka þar niður í fimm, en samsetningin hlutfallslega verður sú sama, þ.e. þrír frá meiri hluta og tveir frá minni hluta.

Annað í þessu samhengi um framhaldslíf hinna pólitísku áhrifa ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi og sitjandi menntamálaráðherra hverju sinni er staða útvarpsstjórans í þessu frumvarpi, þ.e. að útvarpsstjóri búi við það í sínum störfum að vera ráðinn og rekinn af stjórn Ríkisútvarpsins. Mér finnst, virðulegi forseti, það mjög sérkennileg niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra að setja útvarpsstjórann í þessa stöðu og í rauninni hamla starfsfrelsi og möguleikum útvarpsstjóra hverju sinni til þess að innleiða nýja strauma og stefnur og að vera laus við hugsanleg pólitísk afskipti, af því að auðvitað er settur klafi á menn í störfum þeirra með þessu fyrirkomulagi.

Ég tel eðlilegra að fara þá leið sem hv. þm. Mörður Árnason kynnti hér í dag, þ.e. að stjórnin yrði hugsanlega frekar sjö manna og þá yrði bætt inn ís hana við þessa fimm sem nú er gert ráð fyrir tveimur frá starfsmönnum. Þetta tel ég að gæti orðið lýðræðislegra. Þá yrði menntamálaráðherra og þingmeirihluti hans hér ekki með hreinan meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég tel að þetta væri lýðræðislegri leið í starfsemi útvarpsins og að þarna gæti orðið raunveruleg samræða og miklu frjórri umræða en ella um útvarpið sjálft í stað þess ef menn koma beinlínis með skipanir úr ráðuneytinu inn í þessa stjórn.

Til þess að útvarpsstjóri sæti á friðarstóli, hefði frið fyrir afskiptum ráðherra og þingmeirihluta hverju sinni teldi ég það mjög álitlegan kost ef útvarpsstjóri væri skipaður til fimm ára eins og þjóðleikhússtjóri. Þá hefði hann þessi fimm ár til þess að sinna sínu starfi, setja mark sitt á það og hefði ákveðið frelsi.

Ég tel að framkvæmdarvaldið hafi allt of mikil áhrif í þessu frumvarpi miðað við það sem ég hef sagt hér og það veldur mér verulegum áhyggjum, virðulegi forseti, því að markmiðið með jafnróttækum breytingum á lögum um Ríkisútvarpið og hér eiga að verða, á auðvitað að vera að skapa sátt um útvarpið og eyða tortryggni sem hefur skapast á undanförnum árum, tortryggni um pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Þessari tortryggni er alls ekki eytt hér vegna þeirrar stöðu sem útvarpsstjóra er sköpuð í frumvarpinu. Ég tel þetta ekki sanngjarnt gagnvart útvarpsstjórum framtíðarinnar. Þeir þurfa að geta unnið sína vinnu í friði fyrir afskiptum þingmeirihluta hverju sinni og ráðherra hverju sinni. Ég tel þetta mikilvægt lýðræðinu og tel að um Ríkisútvarpið eigi að ríkja friður, um starfsemi þess, og að það eigi að vera laust við alla tortryggni. Mér þætti afar vænt um að heyra viðhorf ráðherra til þessara tveggja hugmynda, þ.e. að við bættust tveir fulltrúar starfsmanna í þá stjórn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og síðan og kannski ekki síst að útvarpsstjóri yrði skipaður í ákveðinn árafjölda, t.d. fimm ár eins og þjóðleikhússtjóri.

Virðulegi forseti. Aðeins um rekstrarformið. Hér er verið að leggja til mjög róttækar breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það er verið að háeffa Ríkisútvarpið. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef ekki fundið rök fyrir því, hvorki í greinargerð né í ræðu menntamálaráðherra eða annarra sem hér hafa talað af hálfu þingmeirihluta, hvers vegna sjálfseignarstofnun hefur verið hér slegin út af borðinu. Ég tel líka að framsóknarmenn sem létu hvað hæst gegn hlutafélagavæðingu RÚV í fyrra, eða fyrir nokkrum mánuðum síðan, þurfi að svara því skýrar hvers vegna hlutafélagaformið var tekið fram yfir sjálfseignarformið. Sjálfseignarformið hefur gefist mjög vel þar sem það hefur verið nýtt til almannaþjónustu, þjónustu sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Við höfum mýmörg glæsileg dæmi um þess konar stofnanir í samfélagi okkar, t.d. á sviði mennta og líka heilbrigðismála eins og hefur verið rakið hér ágætlega fyrr í dag. Vil ég í þessu sambandi t.d. nefna Viðskiptaháskólann á Bifröst sem er mjög gott dæmi um velheppnaða sjálfseignarstofnun þar sem reksturinn er sjálfstæður og frelsi innan stofnunar er mikið til rekstursins þannig að sveigjanleiki er töluverður.

Virðulegi forseti. Einhver sagði hér fyrr í dag að það væru trúarbrögð hjá Sjálfstæðisflokknum að háeffa Ríkisútvarpið og að nú hafi Framsóknarflokkurinn tekið þá trú. Ég get tekið að mörgu leyti undir þetta. Svona lítur þetta út vegna þess að rökin fyrir háeffun umfram sjálfseignarstofnunarformið sem við þekkjum og hefur nýst vel í okkar samfélagi eru ekki beint að þvælast fyrir manni, hvorki hér í umræðunni né heldur í greinargerð með frumvarpinu.

Frú forseti. Það er mín skoðun að við eigum að reka hér öflugt almannaútvarp og öflugt Ríkisútvarp til framtíðar. Ég verð að nefna það hér að þó svo að það standi í frumvarpinu að bannað sé að selja Ríkisútvarpið tel ég að öryggi Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps yrði betur tryggt og að það verði áfram í ríkiseigu, ef t.d. væri sett ákvæði inn í frumvarpið um að það þyrfti aukinn meiri hluta til að samþykkja sölu á því, ef það kæmi einhvers staðar skýrt fram.

Og vegna þess að hér hefur þetta rekstrarform verið valið, hlutafélagaform, þá finnst mér afar slæmt að í frumvarpinu séu ekki nein skilyrði um upplýsingaskyldu. Á slíku er tekið í frumvarpi sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lagt fram um hlutafélög í opinberri eigu sem ég tel mikilvægt að sé rætt samhliða þessu máli og tel að það frumvarp eigi mikið erindi inn í þessa umræðu um Ríkisútvarpið hf.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur önnur atriði sem ég vil koma inn á í ræðu minni. Meðal annars verð ég að segja að það er margt opið í þessu frumvarpi og margt sem má setja spurningarmerki við. Ég hnaut t.d. um textana í 4. og 5. gr. frumvarpsins, um aðra starfsemi og fjárhagslegan aðskilnað. Mér finnst ekki skýrt í frumvarpinu hvað ríkisfyrirtækinu RÚV hf. verði heimilt að gera umfram skilgreininguna á hlutverki þess sem almannaútvarps. Miðað við textana hér virðist nánast allt leyfilegt ef fjárhagur þess verkefnis verður aðskilinn frá rekstrinum sem snýr að almannaútvarpi og skyldum þess samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Þetta finnst mér óskýrt og það er óskýrt hvaða samkeppnisrekstur RÚV má fara í og hvað þingmeirihlutinn og ráðherra telur eðlilegt, hvort eðlilegt sé að setja þessu einhver mörk eða á þetta að vera alveg opið? Er hér átt við áframhaldandi sölu á T-bolum á netinu eða er verið að tala um hugsanlega sölu á sjónvarpstækjum í framtíðinni? Mér finnst þetta ekki skýrt, það er ekkert í þessu frumvarpi sem segir neitt til um það. Hér mætti skýra betur hvað átt er við og sömuleiðis hvort menn telji eðlilegt að þarna verði sett einhver mörk.

Það hefur farið fram afar góð umræða um innlenda dagskrárgerð hér í dag og í því samhengi hefur verið spurt hvert markmiðið með rekstri almannaútvarps eigi að vera, hvort það eigi að vera áframhaldandi erlent afþreyingarefni þar sem er bein samkeppni um áhorf á því sviði við aðrar einkareknar sjónvarpsstöðvar. Hér hefur verið gerð krafa um að hlutfall innlendrar dagskrárgerðar verði skilgreint í nýjum lögum. Mér finnst það athyglisverð hugmynd og mér finnst við eigum að ræða þá hugmynd frekar og að nefndin eigi að taka hana til ítarlegar umræðu innan nefndarinnar þegar málið kemur þangað.

Það er mín skoðun að þegar Ríkisútvarpið er tekið til svona gagngerðrar endurskoðunar og gagngerðrar breytingar eigi að nota tækifærið og blása til sóknar í innlendri dagskrárgerð, svo sem barnaefni, menningarefni og fréttatengdu efni. Ég tek undir með þeim sem um það hafa rætt hér í dag og vil sjá skýrari sýn í þessum málum. Við erum með tækifæri í höndunum til þess að blása til sóknar í þeim efnum og byggja undir vandaða íslenska dagskrárgerð til framtíðar og ég tel það ekki vera gert með þessu frumvarpi og hefði viljað sjá fram á aukin tækifæri í þeim efnum vegna þess að auðvitað eigum við að nýta Ríkisútvarpið til þess. Við erum með frábært tæki í höndunum, vel menntað og reynslumikið starfsfólk, við erum með tækin og aðstöðuna og annað og því ætti að koma skýrari sýn í þessum efnum samhliða því frumvarpi sem nú er til umræðu.

Virðulegur forseti. Ég get ekki lokið ræðu minni öðruvísi en að nefna nefskattinn sem áætlað er að leggja á okkur Íslendinga. Þetta finnst mér arfavond hugmynd og þetta getur leitt til mikils álags á stórar fjölskyldur þar sem ungmenni yfir 16 ára aldri eru í heimahúsum. Ég verð að segja að þetta er að mörgu leyti dæmigert fyrir ríkisstjórnina vegna þess að álögur á fjölskyldur í landinu eru að aukast og aukast. Það eru leikskólagjöld upp að 6 ára aldri. Síðan eru skertar barnabætur frá 7 ára aldri og nú á nefskattur vegna RÚV að leggjast á fjölskyldur þegar börnin eru orðin 16 ára. Mér líst afar illa á þessa hugmynd, það er ekki hægt endalaust að bæta kostnaði á fjölskyldur. Ég tel að það sé kominn tími til að þessu linni. Þetta er hluti af fjölskyldupólitíkinni sem hér er rekin en þetta er ekki sú fjölskyldupólitík sem menn tala fyrir á hátíðarstundum. Hér er beinlínis verið að leggja auknar álögur á fjölskyldur sem eru með 16 ára og eldri ungmenni í heimahúsum og það líst mér afar illa á.

Virðulegi forseti. Að lokum hefði ég viljað sjá að hér væri verið að búa til ramma utan um sjálfstætt kraftmikið almannaútvarp með skýr markmið og hlutverk og, eins og ég nefndi hér áðan, að gengið væri í þá átt að styrkja innlenda dagksrárgerð með skýrari hætti en gert er. Þetta frumvarp uppfyllir ekkert af þessu og ég tel að pólitísk afskipti verði of mikil ef þetta frumvarp verður að veruleika. Ég tel sömuleiðis, virðulegi forseti, að taka hefði átt á málum heildrænt og í samhengi við þá miklu vinnu sem hefur unnin hefur verið varðandi fjölmiðla í fjölmiðlanefndinni, það hefði verið langskynsamlegast að gera það þannig og við hefðum að mínu mati fengið mun betra frumvarp út úr því. En hér hefur farið fram mjög góð umræða og mjög margar góðar tillögur og hugmyndir til breytinga á frumvarpinu hafa komið fram. Ég vona svo sannarlega að nefndin taki tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram í dag áður en málið kemur aftur til 2. umr. Virðulegi forseti. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. menntamálaráðherra og sömuleiðis fulltrúum meiri hlutans í menntamálanefnd hvort þeir séu opnir fyrir breytingum á frumvarpinu, t.d. þeirri hugmynd að útvarpsstjóri verði skipaður til fimm ára eins og þjóðleikhússtjóri og hvort þeir séu til viðræðu um að stækka stjórnina og hleypa starfsmönnum þar að.