132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Rekstur býr til halla. Já, þannig er það í kennslubókunum að það fer eftir rekstrinum hvort halli er á fyrirtækinu eða ekki. Samt hefur það nú verið þannig í málefnum Ríkisútvarpsins að hallinn hefur verið ákveðinn á þingi. Það var það sem ég var að segja í andsvari áðan vegna þess að það var talið þeim sem hafa farið með reksturinn á Ríkisútvarpinu til lasts að þeir hefðu rekið Ríkisútvarpið með halla. En það hefur verið þannig í fjárlagafrumvarpinu, í athugasemdum við Ríkisútvarpspartinn þar, að ákveðinn halli hefur verið áskilinn, rekstrarniðurstöðurnar ákveðnar fyrir fram.

Það hefur gerst síðustu 10, 15, 20 árin, einmitt í, undarlegt en satt, í valdatíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu, að þeim tekjum sem ríkisstjórnin hefur fengið af afnotagjöldum hafa verið settar skorður og Ríkisútvarpinu sagt að útvega sér tekjur með öðrum hætti. Misjafnir stjórnendur á Ríkisútvarpinu hafa brugðist við með því að hagræða og skera niður á víð og dreif um útvarpið. Þeir hafa líka reynt að nota innheimtukerfið betur, þar á meðal marsbúagöngurnar um hverfin, og þeir hafa einbeitt sér á markaði auglýsinga og kostunar. Það hafa verið viðbrögðin við þessu og þess vegna er það á ábyrgð meiri hluta Alþingis og ríkisstjórnarinnar hvernig hlutunum er fyrir komið. Sú staða sem núna er uppi í fjárhagsmálum Ríkisútvarpsins er á ábyrgð Péturs Blöndals en ekki þeirra sem þar hafa farið með rekstur, sem þeir hafa gert tiltölulega vel miðað við þær aðstæður sem þeir hafa búið við. Það er rétt að menn geri sér grein fyrir þessu áður en þeir fara með staðlausa stafi hér í ræðustól. Það var það sem ég var að vekja athygli á áðan.