132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Afkoma sérhvers fyrirtækis, jafnt stofnana sem einkafyrirtækja, myndast sem mismunur á tekjum og gjöldum. Það sem stjórnandi fyrirtækis hefur í hendi sér eru í fyrsta lagi gjöldin: Í hvaða gjöld ræðst hann? Hversu snjall er hann að nýta þann mannafla sem hann hefur? Þarf hann allan þennan mannafla? Getur hann komist af með færri og getur hann sparað þetta eða gert það hagkvæmar eða ódýrar eins og hin góða, hagsýna húsmóðir sem oft er vitnað til?

Svo eru það tekjurnar, hvernig nær hann inn tekjum á snjallan hátt og góðan? Það er þetta tvennt sem góður rekstrarmaður gerir og þeir eru mjög mismunandi, rekstrarmennirnir, afskaplega mismunandi. Einn getur rekið fyrirtæki með glimrandi hagnaði á meðan annar gerir það með tapi.

Munurinn á þessu fyrirtæki, RÚV, og öllum öðrum? Það er með fastan tekjupóst, það sigla inn tekjurnar, þeir geta vaðið inn á heimili fólks og heimtað af því tekjur. Sá er munurinn, aðrir aðilar í þjóðfélaginu geta yfirleitt ekki haft þetta svona.