132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:33]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að sá sem hér stendur hefur nú hlustað á ýmsar ræður hjá hv. þingmanni og ekki alltaf á þessum vettvangi, og ég verð að viðurkenna að maður hefur nú sjaldan hlustað á eins dapurlegan málflutning. Hér kom hv. þingmaður fram með hefðbundið lítillæti og hélt því fram að stjórnarliðar hefðu bara verið með pólitískan barnaskap, það var einhvers konar rauður þráður í ræðu hv. þingmanns.

Ef maður skoðar aðeins efni ræðunnar þá var ekki margt sem stóð þarna upp úr. Hér er allt í einu talað mikið um mikilvægi þess að hafa víðtækt samráð. Virðulegur forseti og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég veit ekki betur en hér hafi verið reynt og þess hafi verið krafist og að menn hafi beðið um að fá að vera í nefndum og öðru slíku sem tengist fjölmiðlum og í annan stað hafa menn sérstaklega fundað fyrir framlagninguna, hv. þm. Mörður Árnason, … (MÁ: Hvaða samráð hefur verið um Ríkisútvarpið?) Ég man ekki eftir að það hafi verið gert við önnur tilefni. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til þess að flytja ræðu sína.) (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni, hvaða samráð hefur verið haft um Ríkisútvarpið, Guðlaugur Þór?) (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.) (Gripið fram í.)

Ég held að við þurfum bara að fá dyravörð til að koma þingmanninum eitthvað, róa hann eitthvað niður.

Hvað sem því líður er ánægjulegt að þessi hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar sé farinn að hafa áhuga á samráði því að ég man ekki eftir því á fyrri vinnustað hv. þingmanns að það hafi nokkurn tíma verið gert.

Aðalatriði málsins og það sem ég vil spyrja hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um, vegna þess að nú er talað mikið um sjálfseignarstofnun: Á hvaða tímapunkti varð hv. þingmaður svona fráhverfur hlutafélagaforminu? Ég man ekki betur en eitt það fyrsta sem fyrrverandi borgarstjóri gerði, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, væri að breyta félagslegu húsnæði (Forseti hringir.) í hlutafélag. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, það er bara svo mikið kallað hér fram í að ég þarf nú kannski smátíma til að bera fram spurningu mína.

Mig langar til að fá svar við því: Á hvaða tímapunkti varð hlutafélagaformið svona ómögulegt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?