132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekkert fráhverf hlutafélagaforminu og hef aldrei verið. Ég talaði heldur ekkert gegn hlutafélagaforminu hér í ræðustól áðan. Ég hef tekið eftir því áður að þingmanninum Guðlaugi Þór Þórðarsyni gengur svolítið illa að heyra þegar ég tala hér úr ræðustól Alþingis, einhverra hluta vegna. Ég talaði um að ég hefði talið heppilegra fyrir Ríkisútvarpið, og færði fyrir því rök, að vera í formi sjálfseignarstofnunar. Ein rökin voru m.a. þau að vegna forsögu málsins og vegna þess hvernig menn væru stemmdir í Sjálfstæðisflokknum treysti fólk því ekki að hlutafélag fæli ekki í sér aðdraganda að sölu. Til þess eru nú refirnir skornir og menn hafa fylgst með því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt hlutafélagavætt sem lið í söluferli. Þess vegna er ákveðin tortryggni og þess vegna hefðum við talið heppilegra að gera þetta að sjálfseignarstofnun. Þá er þetta einkaréttarlegs eðlis, nær því sjálfstæði sem því fylgir, en það þarf ekki að tortryggja það að sjálfseignarstofnun verður trauðla seld.