132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:39]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, ég hef tekið þátt í því að gera opinberan rekstur að hlutafélögum. Oftar en ekki hefur það verið undanfari sölu. Þannig var Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar seld, sömuleiðis Pípugerð Reykjavíkurborgar. Þannig var ýmislegt selt sem hafði verið gert að hlutafélögum og það var liður í söluferli rétt eins og hjá ríkinu. En ég hef líka tekið þátt í því að búa til hlutafélag um Félagsbústaði og það er alveg skýrt að Félagsbústaðir verða ekkert seldir nema með samþykki félagsmálaráðherra þannig að það er í rauninni félagsmálaráðherra sem hefur öll forræði á því máli og ekki borgarstjórn Reykjavíkur. Það er því algjörlega kirfilega fyrir það girt að það fyrirtæki verði selt og það er auðvitað hægt að gera svoleiðis í lögum. Það er hægt að búa þannig um hnútana í lögum um Ríkisútvarpið með ýmsum hætti. Það er líka hægt að búa þannig um hnútana í lögum um Ríkisútvarpið að Ríkisútvarpið uppfylli ýmsar kröfur sem opinberum stofnunum er gert að uppfylla. Ég bið bara þingmanninn að lesa frumvarp mitt um hlutafélög í opinberri eigu og þá yrði hann nokkru fróðari um það.