132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er enginn hræðsluáróður, þetta er bara raunsæi. Ég vil minna hv. þingmann á að sömu fyrirheit voru gefin varðandi Landssímann á sínum tíma. Ég stóð þá hér í ræðupúlti og tók þátt í umræðu og hlustaði á umræðurnar, bæði sjónarmið sem fram voru sett af hálfu Framsóknarflokksins og af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Allt var þetta svikið.

Ég var að rifja upp samþykktir á þingum Sjálfstæðisflokksins og Sambands ungra sjálfstæðismanna. Menn hafa skírskotað til frumvarpa sem hafa legið og liggja fyrir þinginu og menn hafa talað fyrir hér í þingsalnum. Það er gefið mál að ef Ríkisútvarpið er gert að hlutafélagi er verið að stíga eitt skref í þessa átt. Það er alla vega gefið mál að það er auðveldara að koma því á sölu en ella vegna þess að menn hafa þá farið í gegnum ýmis frumstig í málinu, að hafa réttindin af starfsfólkinu og setja stofnunina í markaðsumbúðir og þá er auðveldara að stíga skrefið til fulls. Þetta er bara staðreynd og þetta er bara raunsæi.

Varðandi samþykktir Framsóknarflokksins frá öndverðri síðustu öld, mér kom nú aldrei í hug að fara út í slíkt. Ég var að vitna í þingmann Framsóknarflokksins í blaðagrein sem er nú ekki eldri en að hún birtist 11. nóvember sl. þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Ég er að vitna í þingmann Framsóknarflokksins.