132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:09]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli í umræðunni hversu mikinn áhuga hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur á málflutningi Framsóknarflokksins í þessu máli. Ljóst er að hann ber hag Framsóknarflokksins mjög fyrir brjósti og stefnu þess flokks (ÖJ: Hvað með kjósendurna?) hvað varðar málefni Ríkisútvarpsins og ég efast ekki um að hv. þm. Jón Bjarnason ber hag Framsóknarflokksins einnig mjög fyrir brjósti. (Gripið fram í.)

En úr því að hv. þingmaður hefur svona miklar skoðanir á stefnu annarra stjórnmálaflokka í málefnum Ríkisútvarpsins langar mig að varpa aðeins ljósinu að stefnu annars stjórnmálaflokks. Þannig bar við í upphafi þessa kjörtímabils að stjórnarandstöðuflokkarnir riðu hingað til þings undir þeim merkjum að þeir ætluðu að hafa með sér mikið samráð og samstarf, það væri ein sameinuð stjórnarandstaða sem kæmi hingað til þings. Ef ég man rétt var ekki bara blásið í herlúðra heldur var einnig boðað til blaðamannafundar þar sem þetta mikla samráð og samstarf var kynnt.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann um hvað honum finnst um málflutning Samfylkingarinnar í málinu en Samfylkingin hefur opnað á það að Ríkisútvarpið verði hugsanlega gert að hlutafélagi eða þá að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun. Mig langar til að heyra viðhorf hv. þingmanns til málflutnings stærsta stjórnarandstöðuflokksins vegna þess að hann virðist hafa miklar skoðanir á stefnu Framsóknarflokksins í málinu. Ég vil gjarnan heyra skoðun hv. þm. Ögmundar Jónassonar vegna þess að ég veit að hann hefur skoðun á málinu og ég veit að hann hefur skoðun á stefnu Samfylkingarinnar í málinu, (Forseti hringir.) og ég vil fá að heyra viðhorf hans til hennar.