132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi Framsóknarflokkinn. Já, auðvitað beina menn sjónum sínum að Framsóknarflokknum í málinu vegna þess að menn höfðu treyst á Framsókn. Eftir allar yfirlýsingarnar og allar heitstrengingarnar höfðu menn treyst á Framsókn. Þegar hún bregst eina ferðina enn í þessu mikilvæga máli verða menn fyrir vonbrigðum. Auðvitað vitna menn þá í ummæli þeirra sem þó eru að þráast við. Þess vegna var ég að vitna í skrif hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef horft til Framsóknarflokksins og reynt að höfða til samvisku hans.

Varðandi önnur sjónarmið sem komið hafa fram á þinginu um hlutafélagavæðingu eða opnun á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi þá teljum við það ekki vera æskilegt, alls ekki, við erum því andvíg. Hins vegar vil ég vekja athygli fyrirspyrjanda á því, af því að reynt er að setja fleyg á milli okkar og Samfylkingarinnar í þessu máli, að ég hef sagt fyrr við umræðuna að þingmál sem fram hefur komið hjá Samfylkingunni gengur út að reynt verði að skapa þverpólitíska samstöðu í málinu. Menn töluðu af fyrirlitningu um að setja ætti á fót nefnd til að fjalla um málið og móta sameiginlegar tillögur eða reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég styð þetta, við styðjum þetta. Við höfum sett fram okkar tillögur, þær eru mjög skýrar, um með hvaða hætti hægt er að efla stjórnsýslu stofnunarinnar og treysta tekjustofna hennar. (Forseti hringir.) Við höfum sett fram slíkar tillögur. (Forseti hringir.) En við erum að sjálfsögðu reiðubúin að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa því að mjög (Forseti hringir.) mikilvægt er að reyna að ná þverpólitískri samstöðu í þessu máli.