132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Því verður ekki líkt við hvaða fyrirtæki sem er. Það er menningarstofnun í eigu þjóðarinnar sem á að starfa samkvæmt lögum sem Alþingi setur. Það sem meira er, hún á að veita lýðræðislegt aðhald. Hún er mikilvægur umræðuvettvangur, á að vera kjölfesta í lýðræðislegri umræðu í landinu. Það er mjög mikilvægt að búa svo um hnúta að Ríkisútvarpið sé í reynd sjálfstætt, í þeim skilningi að valdapólitísk öfl ráðskist ekki með það.

Staðreyndin er sú að sá sem fær nánast einræðisvald innan stofnunarinnar, alræðisvald í hendur, er settur undir rammpólitískan járnhæl. Það er meiri hlutinn á Alþingi sem kemur til með að stýra stofnuninni. Sú stjórn getur ráðið og rekið þann mann. Sú hætta er fyrir hendi að stjórnarmeirihlutinn hafi útvarpsstjóra í vasanum. Mér finnst sannast sagna óhugnanlegt að hlusta samhljóminn í því sem heyrist frá skrifstofu útvarpsstjóra og ræðum Sjálfstæðisflokksins, sem stýrir þessu máli. (SKK: Hvað með Samfylkinguna?) Jú, ég hef rætt um sjónarmið Samfylkingarinnar. Ég hef gert það málefnalega. En við stöndum frammi fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, með litlu Framsókn í vasanum, þröngvar þessu máli í gegn og treystir völd sín yfir Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Ég stóð í þeirri meiningu að það ætti að skera á slíkt tengsl í stað þess að treysta þau.