132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er rætt við 1. umr. frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. sem felur að meginstofni í sér að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og breyta þar með rekstrarformi og ýmsu í ytri ramma útvarpsins og þá líka starfsháttum og innra skipulagi.

Kannski kristallast ólík sjónarmið í þessu máli í orðum sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson viðhafði hér áðan þegar hann sagði: „Hvers vegna á ekki útvarpsstjóri eða framkvæmdastjóri útvarpsins að vera bara eins og hver annar forstjóri fyrir hverju öðru hlutafélagi? Hvers vegna á að vera önnur umgjörð um framkvæmdastjóra útvarpsins en framkvæmdastjóra hlutafélaga almennt?“ Þetta er jú spurning út af fyrir sig.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lítum á Ríkisútvarpið sem almannaþjónustustofnun, mikilvæga stofnun til að standa að ákveðinni þjónustu fyrir almenning. Það er menningarstofnun. Það er fréttastofnun. Það er stofnun til þess að miðla upplýsingum. Það er öryggisstofnun. Það er almenningsstofnun og hlutverk þess er fyrst og fremst það.

Hlutafélag aftur á móti er umgjörð um fyrirtæki í samkeppnisatvinnurekstri. Hlutafélag er umgjörð um fyrirtæki sem fyrst og fremst er ætlað að skila eigendum sínum fjárhagslegum arði. Hlutafélag er umgjörð þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að selja hluta úr félaginu, enda heitir það hlutafélag. Það er hægt að selja fáa eða marga eða alla hluti hlutafélagsins. Þetta er þá tilgangurinn þegar verið er að stofna hlutafélag, þ.e. að fella það að samkeppnisumhverfi í atvinnurekstri. Ég er alveg sammála kostum hlutafélagsformsins við þær aðstæður. Atvinnurekstur í samkeppni getur verið til sölu að hluta eða öllu leyti. Hann hefur það hlutverk að skila eigendum sínum hámarksarði. Þetta getur vel hentað í samkeppnisatvinnurekstri. En þegar litið er á Ríkisútvarpið, á þjónustustofnun sem fyrst og fremst þjónar almenningshagsmunum, þá hentar þetta form engan veginn. Þess vegna kristallast ólík sjónarmið í orðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hv. þingmaður gerir ekki greinarmun á því hvort Ríkisútvarpið sé þjónustustofnun eða bara fyrirtæki í rekstri. En fyrirtæki í rekstri sem hlutafélag ber númer eitt að skila eigendum sínum arði af rekstrinum.

Við höfum hér fordæmi fyrir því hvernig fer þegar það ferli hefst að breyta þjónustustofnunum í hlutafélög einmitt í þeim tilgangi, eins og hér hefur komið fram, að nútímavæða þær. Menn hafa talað um að þeir væru að nútímavæða þær og þess vegna þurfi að breyta þeim í hlutafélög.

Frú forseti. Ég hef verið forstöðumaður fyrir ríkisstofnun og ég taldi mig alveg sæmilega hafa nútímavætt hana. Ég fann aldrei að það hamlaði mér eða starfseminni eða stofnuninni á nokkurn hátt þó að hún væri ríkisstofnun. Ég leit á stofnunina sem þjónustustofnun við almenning, við þjóðina og að sjálfsögðu var allt sem laut að rekstri og rekstrarhagkvæmni haft í heiðri eins og kostur var, að sjálfsögðu. Enda þótt stofnun sé ríkisstofnun þá er ekki þar með sagt að kasta eigi fyrir róða öllu því sem heitir hagkvæmni í rekstri, fjarri því. Það er því blekkingartal þegar sagt er að nútímavæða þurfi reksturinn og að það sé aðeins hægt með því að hlutafélagavæða. Það sýnir bara, frú forseti, dómadags vankunnáttu þeirra sem láta sér slíkt um munn fara. Ég verð eiginlega að halda að hv. þingmenn viti betur en að láta sér um munn fara að þetta sé nauðsynlegt til þess að nútímavæða reksturinn og að ekki sé hægt að gera það innan viðja ríkisstofnunar.

Nema þá, frú forseti, að menn séu að horfa til þeirra vandræða sem þeir stóðu frammi fyrir fyrir skömmu varðandi Kjaradóm og kjaranefnd því að ýmsir forstjórar ríkisstofnana heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd og fá laun sín ákveðin þannig. Aðrir starfsmenn fá laun sín samkvæmt ákvörðun kjarasamninga opinberra starfsmanna á einn eða annan veg. En með því að breyta þessu í hlutafélag losna menn við að fella þessa starfsmenn undir almenna kjarasamninga, forstjórana, og geta gert við þá sérsamninga og þurfa þá ekki að liggja andvaka um jól og áramót vegna þess að einhver Kjaradómur hefur úrskurðað þeim laun. Með því að kippa framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins út fyrir sviga, taka hann út fyrir almenna launaákvörðun alveg eins og framkvæmdastjóra Íslandspósts — er hann ekki formaður Samtaka atvinnulífsins núna? Hann er líka forstjóri fyrir ríkisstofnun en laun hans eru ekki ákveðin af Kjaradómi, nei, samkvæmt sérstakri ákvörðun þeirrar stjórnar sem ræður hann. Er þetta þó að fullu ríkisstofnun. Eins er með Samkeppniseftirlitið og eins er með Fjármálaeftirlitið. — Eru menn kannski að reyna að forðast andvökunætur út af Kjaradómi með því að taka hann þarna út fyrir sviga? Alla vega býst ég við að laun forstjóra Ríkisútvarpsins samkvæmt nýjum lögum verði ekkert í líkingu við þau laun sem verið var að takast á um hér við Kjaradóm. Ég dreg þetta hérna fram, frú forseti, því að hér hefur verið lögð áhersla á að þetta verði áfram ríkisfyrirtæki að fullu í eigu ríkisins en lúti hins vegar öðrum lögmálum.

Hér hefur verið á það minnst að þetta hafi áður verið gert og svardagar gefnir um að ekki eigi að selja. Í aðdraganda hlutafélagsvæðingar Pósts og síma árið 1996 birtist viðtal við þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal í 4. tölublaði 8. árgangs BSRB-tíðinda frá 1995. Þar segir, með leyfi forseta:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem eingöngu notar stafrænt símakerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada, sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu, þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.“

Hefur einhver álasað eða fundið að því að Ríkisútvarpið hafi ekki fylgst með á tæknisviðinu eftir því sem það hefur fengið fjármagn til? Þó að við höfum gagnrýnt það að Ríkisútvarpið skuli ekki veita með betri þjónustu úti um land og að útvarpssendingar séu takmarkaðar víða um land þá hygg ég þó að ekki sé hægt að væna Ríkisútvarpið um að það hafi ekki reynt að gera sitt og fylgjast vel með alveg eins og þáverandi samgönguráðherra sagði um Póst og síma. Hann hældi honum fyrir það hvað honum var vel stjórnað og hvað allir reyndu að gera eins gott úr öllu sem þeir höfðu á milli handanna og kostur var. Ekki var það það ástæðan og það er hliðstætt því sem er í dag.

Svo segir þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem er rekin eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum, þótt í smáu sé, nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum.“

Já, það er nú meira hvað þessir alþingismenn þvælast fyrir. Þeir eru greinilega mesti þrándur í götu fyrir nútímavæðingunni ef eitthvað á að vera að marka þær setningar sem sagðar eru þarna og hafa verið sagðar hér í dag. Þeir eru þrándur í götu þess að hægt sé að bregðast vel og snögglega við samkvæmt nútímaviðskiptaháttum.

Svo segir þáverandi samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.“ — Takið eftir starfsöryggi. — „Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Ef við hefðum sett bara Ríkisútvarpið þarna inn í staðinn hefðu þetta verið eiginlega alveg nákvæmlega sömu orðin og hæstv. virðulegur menntamálaráðherra viðhafði hér. Við hefðum bara getað sett Ríkisútvarpið í staðinn fyrir Póst og síma og þá væru þetta eiginlega nákvæmlega sömu orðin og standa í greinargerðinni með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og nákvæmlega það sem hæstv. menntamálaráðherra sagði.

Hver var síðan niðurstaðan með Landssímann þrátt fyrir alla þessa svardaga? Fyrst var gefin heimild til þess að hlutaféð væri selt og síðan var hann seldur. Og hver ætli hafi verið sýnileg afstaða þjóðarinnar gagnvart því máli? Í hverri stórri skoðanakönnuninni á fætur annarri kom fram að mikill meiri hluti, allt upp í 80% þeirra sem tóku þátt í þeim skoðanakönnunum sem gerðar voru síðustu mánuðina áður en Landssíminn var seldur voru andvíg sölunni en samt var hann seldur. Þessi andstaða var vituð. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að þetta fari ekki nákvæmlega á sömu leið með þjónustustofnunina Ríkisútvarpið? Að minnsta kosti er vilji áhrifamikilla þingmanna annars stjórnarflokksins alveg klár, Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa meira að segja flutt þingmál þar sem lögð var áhersla á að selja Ríkisútvarpið, frumvarp til laga á yfirstandandi löggjafarþingi, mál nr. 54 á þskj. 54. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson. Þar segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Einkavæðing RÚV. Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, verði felld úr gildi 1. janúar 2007, en nánar tilgreind ákvæði þeirra verði tekin upp í útvarpslög, nr. 53/2000. Stofnað verði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins og það selt.“

Þannig er vilji áhrifamanna Sjálfstæðisflokksins. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, einnar af mikilvægustu nefndum þingsins af öllum öðrum mikilvægum og þess vegna greinilega háttsettur í trúnaðarstöðum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, setur þetta fram.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði hér til flokkssamþykkta, bæði Sjálfstæðisflokksins og ungra sjálfstæðismanna, þar sem sömu sjónarmið eru áréttuð. Það er því alveg ljóst hvert stefnt er. Hv. þm. Ögmundur Jónasson rifjaði líka upp flokkssamþykktir Framsóknarflokksins og vitnaði í skrif hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hafði rakið það mjög ítarlega að Framsóknarflokkurinn hefði afdráttarlaust hafnað því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið því að hann vissi að það mundi leiða til sölu þess. En Framsóknarflokkurinn hefur látið undan og vilji Sjálfstæðisflokksins orðið ofan á.

Frú forseti. Það er því ljóst í hvaða feril verið er að fara. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið þar sem byggt er á þeim grundvallarsjónarmiðum, hugsjónum og afstöðu að Ríkisútvarpið sé almannaþjónustustofnun til að þjóna almenningi. Markmiðið er ekki að skaffa eigendum hámarksarð eins og gert er þegar verið er að stofna hlutafélög. Við leggjum líka áherslu á lýðræðislega uppbyggingu Ríkisútvarpsins. Greinir þar verulega á í þeim áherslum sem lagðar eru upp í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Þar er gert ráð fyrir að aðild starfsmanna t.d. að stjórn útvarpsins sé engin, hún sé slegin út. Maður veltir því fyrir sér hvað bærist innra með ráðherra hjá flokki sem stundum hefur kennt sig við lýðræði og kallar sig Sjálfstæðisflokk. En grunnlýðræði er einmitt ekki síst það að starfsmenn geti orðið þátttakendur í stjórnun þess fyrirtækis sem þeir starfa hjá. Það er kostur að þekking þeirra, reynsla og metnaður fyrir hönd þeirrar stofnunar sem þeir vinna hjá geti átt sér farveg í gegnum stjórnun á þeirri stofnun. Nei, þetta er talið geta truflað hugsanlegar arðgreiðslur. Alla vega er þetta eitt af grundvallaratriðunum sem lagt er upp með að starfsmenn hafi sem minnsta aðkomu að stjórnun Ríkisútvarpsins. Það gengur þvert á lýðræðishugmyndir og áherslur varðandi lýðræði í atvinnurekstri hjá fyrirtækjum og stofnunum sem hefur þó verið aðall í þróun í stjórnun og rekstri stofnana á undanförnum árum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem fór hér mjög ítarlega í gegnum þessi mál, sagði að verið væri að fara 25 til 40 ár aftur í tímann hvað varðar stjórnun og hugmyndir um stjórnun hvort heldur væri fyrirtækja eða stofnana. Ég er honum sammála. Hér er verið að fara langt aftur í tímann með því að taka upp forneskjuleg vinnubrögð við að byggja upp stjórnun fyrirtækis hvað þá heldur almannaþjónustustofnunar eins og Ríkisútvarpið er.

Frú forseti. Ég hlýt að harma þá ógæfu sem er að dynja yfir heilu stjórnmálaflokkana með því að koma hér og flytja frumvarp til laga um jafnmikilvæga þjónustustofnun, almannaþjónustustofnun, og Ríkisútvarpið er og breyta því annars vegar í seljanlegt fyrirtæki og hins vegar að færa stjórnun og starfsumgjörð þess áratugi (Forseti hringir.) aftur í tímann.