132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla mér kannski um of að halda bæði vöku og athygli hv. þingmanna þegar svo langt er liðið á kvöld og eftir þá löngu umræðu sem hér hefur staðið í allan dag. Þetta hefur að mörgu leyti verið fróðleg og á köflum málefnaleg umræða þar sem sjónarmið hafa tekist á en það eru nokkrir punktar sem mig langaði sérstaklega að vekja eftirtekt á og koma sjónarmiðum mínum á framfæri varðandi þá.

Fyrst vil ég nefna, frú forseti, að ég hef lesið með athygli þær greinar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur skrifað um þessi efni og hlustað á ýmis viðtöl sem hæstv. ráðherra hefur farið í vegna þessa máls. Það vekur eftirtekt mína að í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði í gær dregur hún sérstaklega fram að í niðurstöðum fjölmiðlanefndar sem skilaði skýrslu á síðasta vori væri efsta mál á niðurstöðulista þeirrar nefndar að efla verði Ríkisútvarpið. Þess vegna kemur mér á óvart að hæstv. ráðherra, ef hún ber hag Ríkisútvarpsins svona fyrir brjósti, skuli vera svo sein sem raun ber vitni að koma af stað starfi til að vinna frumvarp á grundvelli þeirrar skýrslu. Muni ég rétt, frú forseti, skilaði sú nefnd afrakstri sínum þegar á síðastliðnu vori. Hvernig ber þá við að hæstv. ráðherra hefur ekki gert reka að því að koma af stað starfi til að vinna úr þessum mikilvægu niðurstöðum, sem hæstv. ráðherra sagði á sínum tíma að fæli í sér sögulega sátt, fyrr en núna? Ég spyr sérstaklega vegna þess að það er alveg ljóst að í þessu frumvarpi er ekki bara verið að ræða formið eins og hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa þó nefnt. Hér er að finna mikilvæga stefnumarkandi grein um framtíð Ríkisútvarpsins, þ.e. 3. gr., þar sem verið er að reyna að reifa og skilgreina útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þetta er það sem hæstv. ráðherra sagði síðast í grein í Fréttablaðinu í gær að ætti að verða eitt af stóru verkefnunum í vinnu nefndarinnar sem á eftir að semja frumvarp. Hvernig má þá vera, ef hæstv. ráðherra ber svo fyrir brjósti hag almannaútvarpsins, að hún láti þetta tvennt ekki fylgjast að?

Mér finnst það rækalli mikið sleifarlag af hálfu hæstv. ráðherra að láta líða sjö, átta mánuði áður en hún hefst handa við að láta vinna frumvarp úr gögnum fjölmiðlanefndarinnar. Það hefði verið leikur fyrir hana, ef svo er sem hæstv. ráðherra hefur sagt að það sé svo mikil sátt um málið, að gera það strax í sumar og vera reiðubúin með það fyrir jól. Þá hefðu menn getað verið að ræða þetta saman og við mundum kannski sjá hvert það leiðarljós er sem hæstv. ráðherra fylgir varðandi framtíð Ríkisútvarpsins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Af hverju var hún svona lengi að koma þessari vinnu af stað? Í öðru lagi: Af hverju lætur hún þessi tvö mál ekki fylgjast að? Því það er alveg ljóst að þetta frumvarp er ekki bara um formið, þó að menn hafi kosið að gera það aðallega að umræðuefni í dag, heldur er hér verið að reifa í töluvert ítarlegu máli þá stefnu sem Ríkisútvarpið á að fylgja í framtíðinni og þess vegna hefði þetta tvennt átt að fylgjast að.

Frú forseti. Eftir að hafa setið sem fulltrúi Alþingis Íslendinga í Evrópuráðinu og kynnt mér alveg sérstaklega starfsemi fjölmiðlaskrifstofu ráðsins kemur mér mjög á óvart að hæstv. ráðherra skuli halda því fram alveg blákalt að sá umbúnaður sem hér er á stjórn Ríkisútvarpsins hf., ef frumvarpið verður samþykkt, falli í öllu, eins og hæstv. ráðherra sagði í dag, að tilmælum Evrópuráðsins. Ég tel að því fari víðs fjarri. Grundvallarskilyrði af hálfu Evrópuráðsins þegar það ráðleggur nýfrjálsum ríkjum í Austur- og Mið-Evrópu með hvaða hætti þau eigi að byggja upp sitt almannaútvarp er að aðskilja hina nýju stofnun frá hinu pólitíska valdi. Segja má að það sé að vissu marki stigið svolítið skref frá hinu pólitíska valdi með því að pólitískur handhafi framkvæmdarvalds skipar ekki lengur eða ræður í meiri háttar stöður í stofnuninni. En hver er breytingin þegar skyggnst er undir yfirborð frumvarpsins? Þá sjáum við líka að að sumu leyti er tekið skref í átt að auknu pólitísku valdi. Ég á hér við þá staðreynd að það er alveg ljóst að stjórn fyrirtækisins er áfram pólitískt kjörin, þó að hæstv. ráðherra skipi til málamynda stjórnina er hún kjörin hér. En breytingin er sú að fulltrúarnir sem hér eru kjörnir eru undir meira agavaldi en áður vegna þess að nú eru þeir bara kjörnir til eins árs í senn. Það þýðir að það er ákaflega auðvelt að koma þeim frá sem víkja út af spori og fjarlægja þá. Að þessu leyti má setja að agi tyftunar sem er yfirvofandi feli í sér meiri ógn gagnvart þeim en í núverandi kerfi. Með sama hætti mætti halda því fram að ráðningarháttur útvarpsstjóra feli hið sama í sér. Hann hefur ekki vernd, eins og kemur nú fram í tilmælum Evrópuráðsins, tímalega gagnvart því að verða hugsanlega vikið frá ef hann fer út af sporinu.

Nú kemur mér ekki til hugar að hvorki núverandi hæstv. ráðherra né aðrir mundu grípa til svo drastískra ráða en þarna er eigi að síður ekki nægilega vel um hnúta búið. Þegar ég ræði þetta og samband þess einstaklings sem er ráðherra hverju sinni og hins sem er útvarpsstjóri þá vil ég leyfa mér að taka þær persónur og leikendur sem eru á sviðinu út fyrir sviga. En staðreyndin er samt sem áður sú að einmitt í gegnum tengsl handhafa framkvæmdarvaldsins að þessu leyti og löggjafarvaldsins sem kýs fulltrúana í útvarpsráðið sem aftur ræður útvarpsstjórann, á meðan þessi umbúnaður er, hefur sá sem er ráðherra málaflokksins giska mikil völd í sínum höndum. Ég kemst því að þeirri skoðun, frú forseti, að það sé töluvert fjarri því að þetta standist algjörlega þau tilmæli sem Evrópuráðið veitir. Það hefur margsinnis komið fyrir, eins og hv. þingmenn vita, að 1. þm. Reykv. n. hafi haft rangt fyrir sér og það er vel hugsanlegt að ég hafi rangt fyrir mér í þessu efni og hugsanlegt að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér, en það er leið til að skera úr um það. Það er hægt að fá fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins til að skoða það og gefa skriflega umsögn um það. Því langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra og hv. formann menntamálanefndar hvort þau séu ekki bæði þeirrar skoðunar að það væri æskilegt til að engin tvímæli væru á þessu að slík umsögn lægi fyrir áður en þetta frumvarp verður í gadda slegið og samþykkt af Alþingi. Ef hæstv. ráðherra er algerlega sannfærð um að hún hafi rétt fyrir sér á hún ekkert á hættu. Ég skal þá beygja mig í duftið og segja að hún hafi haft rétt fyrir sér þegar það liggur fyrir en ekki fyrr en þá.

Munurinn á mér og þeim hv. þingmanni sem hér situr inni í afherbergi, Ögmundi Jónassyni, varðandi ríkisrekstur almennt er sá að ég er í prinsippinu ekki á móti því að ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki í opinberri eigu séu gerð að hlutafélögum, ég hef margsinnis tekið þátt í því. Ég er heldur ekki á móti því, frekar með því, að samkeppnisrekstur í eigu ríkisins sé færður yfir á einkamarkað, það hefur margsinnis komið fram. En ástæðan fyrir því að ég er fullur efasemda um að rétt sé að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er sá beygur minn að það sé fyrsta skrefið í þá átt að selja það. Nú er það svo að hæstv. menntamálaráðherra hefur hér haft uppi svardaga og hún hefur sagt: Það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Má ég minna á að það er ekki langt síðan sú sáttargerð sem ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar kom fram. Hæstv. ráðherra kallaði hana sögulega, taldi mjög merkilegt að samstaða hefði náðst innan nefndar þar sem allir teygðu sig langt til þess að ná málamiðlun, um það var m.a.s. deilt í sumum flokkum, þar á meðal mínum.

En hin sögulega sátt lifði ekki lengi vegna þess að þegar hæstv. menntamálaráðherra var tugtuð til af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, sem þá var á sínum síðustu pólitísku metrum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá bognaði hún eins og strá og hún féll frá hinni sögulegu sátt. Sporin hræða. Hæstv. menntamálaráðherra, sem hafði faðmað og kysst þessa sátt eins og mær í tilhugalífi opinberlega, skipti um skoðun á einni nóttu og það þurfti ekki annað en einn sterkan stjórnmálamanna til þess að hósta á hana.

Það eru margir öflugir í Sjálfstæðisflokknum í dag og það eru uppvaxandi ungir og efnilegir menn sem að sjálfsögðu munu gera það sem þeir geta til þess að koma fram sinni skoðun. Það vill svo til að eitt af vonarstirnum Sjálfstæðisflokksins, hinn ungi þingmaður sem treyst er fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að leiða menntamálin í gegnum þingið, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur mjög klára skoðun á þessu. Það er sú skoðun sem Samband ungra sjálfstæðismanna hefur haft mjög lengi. Það er sú skoðun sem af og til hefur heyrst á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Það er t.d. sú fundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins sem í dag er tíu ára gömul en hefur aldrei verið úr gildi felld svo að ég viti, sem laut að því að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, verkstjóri hæstv. menntamálaráðherra hér í þinginu, er alinn upp í þessum anda, hreinskilinn ungur maður og hann hefur ekkert farið dult með skoðun sína hér í dag. Hann var spurður að því hvaða afstöðu hann hefði til fyrri yfirlýsinga sinna um að selja Ríkisútvarpið og hv. þingmaður bara gekkst við þeim. Það hefur ekkert breyst á þeim bæ.

Þrír öflugir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki bara lýst vilja sínum til þess að selja Ríkisútvarpið, þeir hafa beinlínis gert Alþingi tillögu um að hefjast handa við að selja það. Ég minnist þess þegar ég var töluvert yngri á vellinum með félaga Jóni Baldvin 1995 þá sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn væri svo skroppinn hugsjónum að hann hefði bara tvennt á sinni stefnuskrá, sem var rétt varðandi þær kosningar, að efla guðskristni í landinu og selja Rás 2. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum.

Því legg ég lítinn trúnað og lítið traust á yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra varðandi þetta frumvarp um að ekkert skuli selt — í ljós kemur þegar ég les það að það er opnað á það að selja Rás 2. Í 2. tölulið 3. gr. kemur beinlínis fram að það er heimilt að þessu frumvarpi samþykktu að selja Rás 2. Þar segir að RÚV hf. skuli einungis bera skylda til þess að reka eina sjónvarpsrás og eina útvarpsrás. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er allt í lagi að koma hinum frá, svo einfalt er það nú. Þannig að því miður, sporin hræða.

Hér í dag kom vitni í stólinn. Hv. þm. Hjálmar Árnason, partur af þeim flokki sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að lúskra í duftið í þessu máli. Hann kom og sagði að fyrir ári hefði verið mikill kvíði í Framsóknarflokknum um það að ef frumvarp af þessum toga yrði samþykkt þá yrði RÚV selt. Af hverju? Vegna þess, eins og hann sagði hér í stólnum: Við vissum til þess að margir þingmenn sjálfstæðismanna vilja selja RÚV. Hann sagði í dag að það væru margir þingmenn sem vildu það. Hann taldi hins vegar að það hefði verið slegið undir þann möguleika með orðalaginu í 1. gr. um að sala sé óheimil. Frú forseti, ég gef nú lítið fyrir það. Ég hef nú sjálfur verið í liði ríkisstjórnar sem setti svipuð lög. Þau hlutafélög eru ekki lengur í eigu ríkisins og ég á minn þátt í því líka. Þar var um allt annað mál að ræða.

Hér hafa menn deilt um hvort hafa eigi það form að hafa sjálfseignarfélag í atvinnurekstri eða hlutafélag. Fyrstur manna skal ég játa að hlutafélög eru auðvitað giska lipur í rekstri og þau eru þekkt út í hörgul. Það gerist fátt í hlutafélögum sem menn hafa ekki kynnst áður þannig að það er auðvelt að leysa margvíslegan vanda. En hlutafélagsformið hefur fyrst og fremst verið notað í kringum fyrirtæki þar sem menn eru að ávaxta sína peninga, fyrirtæki í rekstri að reyna að hafa af því fjárhagslegan ávinning. Það gildir allt annað um fyrirtæki sem eru í opinberri eigu eða stofnanir. Það er allt annar tilgangur með þeim og það eru aðrar hefðir. Ég verð að segja það að sjálfseignarstofnun gengur a.m.k. vel upp innan ramma laganna. Hún er kirfilega gróðursett innan vébanda einkaréttarins. Hún er líka þekkt úr atvinnulífinu, m.a.s. þekkt að því að helsta útungunarstöð Sjálfstæðisflokksins, virtur skóli, Verslunarskólinn, var áratugum saman rekinn sem sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Ef einhverjir þekkja kosti þess fyrirkomulags þá eru það hinir ungu tyrkir íhaldsins sem hér hafa stundum streymt á síðustu áratugum í gegn.

Framsóknarflokkurinn var vélaður til þess að samþykkja þetta. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég heyrði hæstv. forsætisráðherra segja það, og á það reyndar hér á borði mínu í útskrift af frétt, að ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn skipti um skoðun hafi verið sú staðreynd, sagði hann, að ESA teldi að það væri nauðsynlegt að hafa þetta sem hlutafélag til þess að það stæðist ákveðin skilyrði. Sú var ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn skipti um skoðun.

Svo hlustaði ég á mál hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem ég hef áður sagt í minni ræðu að er hreinskilinn ungur maður. Hann sagði það alveg hreint út hér í dag að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gengi alveg, hitt væri bara miklu betra.

Þegar maður les síðan greinargerðina með þessu frumvarpi kemur í ljós að þar er sagt svart á hvítu að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gengur alveg að því leyti til að hún uppfyllir skilyrðin sem ESA setur um að ótakmörkuð ríkisábyrgð sé ríkisstuðningur og sömuleiðis um aðskilnað samkeppnisrekstrar frá ríkisstyrktum rekstri. Það er m.a.s. sagt hér á tveimur stöðum að hlutafélagsformið þyki henta betur. Það er ekki sagt: Hlutafélagsformið er það eina sem gildir. Það þykir henta betur. En höfundar frumvarpsins, og fyrir það fær hæstv. menntamálaráðherra hrós, segja svart á hvítu á bls. 10 að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gangi.

Hvaða ályktun dregur maður þá af þessu? Er það svo að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin beri það fyrst og fremst fyrir brjósti að ná sátt um þessa breytingu, að ná sátt um breytingu á Ríkisútvarpinu? Ef svo væri mundi hún þá ekki taka minnsta mögulega samnefnarann, þ.e. annan af þeim tveimur möguleikum sem ríkisstjórnin sjálf segir að komi til greina? Hún segir að vísu að annar sé betri. Hefði hún þá ekki tekið þetta? Jú. Af því dreg ég þá ályktun eina, frú forseti, að hér sé um að ræða einhvers konar trúarbrögð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég tel sem sagt að það mundi vel ganga, og það séu hefðir fyrir því og það sé lagarammi fyrir því, að sjálfseignarstofnunarformið yrði haft um Ríkisútvarpið. Ástæðan fyrir því, og ég ítreka það, að ég hef miklar efasemdir um hlutafélagsformið er fyrst og fremst sú að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Sporin hræða. Ég treysti ekki yfirlýsingum hæstv. menntamálaráðherra af því að frumvarpið opnar á annað og ég treysti ekki orðum hv. þm. Sigurðar Kára varðandi þetta vegna þess að hann hefur sjálfur lýst öðru yfir í formi tillögu hér í þinginu. Ég treysti því ekki þegar ríkisstjórnin segir að RÚV verði ekki selt vegna þess að ég veit að um allan Sjálfstæðisflokkinn glittir í þennan vilja, hann er skjalfestur í formi samþykkta hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, í gömlum landsfundarsamþykktum.

Það sem mér finnst sorglegast og enda ræðu mína á því, frú forseti, er sú staðreynd að hér í dag hefur enginn úr liði ríkisstjórnarinnar talað um með hvaða hætti megi efla Ríkisútvarpið. Það var rauði þráðurinn í niðurstöðu tveggja nefnda, sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði um fjölmiðla á Íslandi, að það sem skipti langmestu máli væri að efla Ríkisútvarpið vegna þess að það væri langbesta vörnin gegn því að fjölmiðlakeðjur eða fjölmiðlarisar næðu einokunarstöðu varðandi skoðanamyndun hér á landi. Það er þess vegna sem ég á svo bágt með að skilja: Af hverju kemur ekki ríkisstjórnarliðið með einhverjar hugmyndir um það?

Að lokum, frú forseti, ég byrjaði ræðu mína á því að kvarta undan því að hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki viljað ræða þetta í samfylgd frumvarps um fjölmiðla á Íslandi almennt og stöðu Ríkisútvarpsins þar, (Forseti hringir.) en ætlar hún ekki að ljúka þessari umræðu með því að leyfa okkur að skyggnast inn í kistil sinn um það hvernig hún sér (Forseti hringir.) RÚV þróast í framtíðinni?