132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það mundi skipta mjög miklu máli. Til þess að breyta slíkum lögum þyrfti að taka langt tilhlaup til þess að komast yfir þann skurð. En að þessu frumvarpi samþykktu þyrfti bara að taka eitt lítið skerf og það væri enginn skurður. Í fyrra tilvikinu væri það ógerlegt, tel ég, um mjög langan aldur nema að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meiri hluta og ég held að hv. þingmaður hafi sjálfur eða einhver í hans flokki talið það ákaflega ólíklegt og reyndar gert einhverjum stjórnarandstæðingi það upp að hann teldi möguleika á slíku. Ég tel nú sem betur fer að svo sé ekki.

Hins vegar sjáum við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú um langa hríð stuðst við hækju sem hann getur sveiflað eins og hann vill og gert við hvað sem hann vill. Menn sjá það í máli eftir máli að Sjálfstæðisflokkurinn ber bókstaflega Framsóknarflokkinn til hlýðni. Þetta er bara síðasta málið í langri runu slíkra mála.

Hv. þingmaður undirstrikaði síðan það sem ég sagði hér, að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Nú er það svo að alla jafna treysti ég stjórnmálaflokkum til þess að a.m.k. burðast við að fylgja sinni stefnu. Að því leytinu til veit ég að í þessu máli mundi Sjálfstæðisflokkurinn reyna að fylgja þeirri stefnu sem auðvitað glittir í mjög víða undir yfirborðinu. Ég treysti því engan veginn þegar hæstv. ráðherra og hv. formaður menntamálanefndar segja að það sé ekkert á dagskrá að selja Ríkisútvarpið. Ég veit að það er ekkert á dagskrá núna. En ég sé bara að í frumvarpinu er opnað á að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Það er í samræmi við gamla stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er í samræmi við yfirlýsingar hv. formanns menntamálanefndar og ég hef langa og bitra reynslu af því að Sjálfstæðisflokkurinn reynir að standa við stefnu af þessu tagi.