132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:23]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hér fer nú að ljúka ítarlegri og mikilli umræðu um Ríkisútvarpið og frumvarp ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Umræðan hefur verið ítarleg og góð og mörg rök benda til þess að þetta frumvarp sé afar vanhugsað og að mjög skynsamlegt væri að vísa því frá.

Æpandi þögn Framsóknarflokksins í þessari umræðu hefur líka vakið mikla athygli. Eini þingmaður Framsóknarflokksins sem tekið hefur til máls í þessari löngu umræðu er hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann hefur fengið það óskemmtilega og vanþakkláta hlutverk að verja hér kúvendingu Framsóknarflokksins í málinu. Hann hamraði auðvitað á því að ekki stæði til að selja Ríkisútvarpið, að það hvarflaði ekki að neinum. En hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér í pontu að hann liti á þetta frumvarp sem bara fyrsta skrefið í átt að því að einkavæða útvarpið og fleiri hafa tekið undir mál hans eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar. Þannig liggur einmitt málið. Á þetta höfum við einmitt verið að benda. Þetta er bara fyrsta skrefið í einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Við höfum dæmi um — og það hefur verið fjallað um það ítarlega hér í dag og í kvöld — að menn hafa breytt afstöðu sinni á einni nóttu.

Það sem stendur upp úr og hefur komið fram í þessum umræðum er að ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður stjórn Ríkisútvarpsins ólýðræðislegri en nú er. Það er opnað fyrir möguleika á að selja Rás 2 og mikil óvissa ríkir um rétt starfsfólks Ríkisútvarpsins. Þetta ætti auðvitað að duga okkur til að sjá að þetta frumvarp er afar óskynsamlegt. Ég vona að í meðförum menntamálanefndar verði gerðar miklar breytingar á frumvarpinu og helst verði það dregið til baka.

Til er vegur út úr þessari krísu ríkisstjórnarinnar. Sá er að líta til frumvarps Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gerir skynsamlegar breytingar á Ríkisútvarpinu sem gætu haft mjög jákvæðar afleiðingar fyrir útvarpið og þjóðina alla í för með sér.