132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þegar hæstv. menntamálaráðherra talaði hér síðast þá spurði ég hana spurningar sem hún svaraði án þess að ráðfæra sig við embættismenn sína. En nú hefur hún fengið langan tíma til að gera það og ég vil þess vegna ítreka spurninguna. Hún var um það af hverju ekki væri gerð grein fyrir samþykktum félagsins og stofnsamningi þess í greinargerðinni eða í ræðu ráðherrans. Það var minnt á að það hefði þó verið gert í frumvarpinu á síðasta þingi, að minnsta kosti í stofnsamningnum. Svarið var að að þetta lægi allt saman svo ljóst fyrir í hlutafélagalögunum. Ég var með þessi hlutafélagalög með mér, en eins og þingheimur veit kunnum við Ögmundur Jónasson, hv. þingmaður, þau utan að. Mér gafst ekki tími til að vitna í þau þá í stuttu seinna andsvari en nú skal ég taka dæmi fyrir hæstv. ráðherra. Í 8., 10. og 11. gr. laganna er vitnað í samþykktir félagsins sem engin grein er gerð fyrir. Í 10. gr. er m.a. þessi setning, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í samþykktum félagsins, …“

Í 9. gr. hlutafjárlaganna, sem ráðherrann vísaði til að væri svona skýr, eru 13 liðir um hvernig samþykktir eigi m.a. að greina. Einn af þeim liðum, 6. liðurinn fjallar um stjórnina og hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Fjölda eða hámarks- og lágmarksfjölda stjórnarmanna og varastjórnarmanna, svo og endurskoðenda eða skoðunarmanna. Þá skal þar ákveða kjörtímabil stjórnarmanna og endurskoðenda.“

Er þetta greinin sem vísað er til í 10. gr. frumvarps menntamálaráðherra? Eða var það eitthvað annað? Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að koma með þessar samþykktir? Af hverju að skilja það eftir þegar á þremur stöðum er vísað til þessarar samþykktar sem menntamálaráðherra hæstv. ætlar sér (Forseti hringir.) einn að samþykkja á hluthafafundi?