132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að eftir umræðuna í dag hef ég reynt að greina hvort einhver samhljómur væri á meðal þingmanna hér í salnum. Ég vil meina að í megindráttum sé sá samhljómur að við viljum starfrækja hér öflugt útvarp í almannaþágu en síðan greinir okkur á um leiðir til að ná því markmiði. Ég leyni því ekkert að ég tel og er sannfærð um að sú leið sem farin er í frumvarpinu muni leiða til þess að við sjáum enn öflugra ríkisútvarp sem uppfyllir þetta menningarhlutverk og kröfur um aukna innlenda dagskrárgerð til að efla íslenska tungu o.s.frv. Það hlutverk verði mun betur innt af hendi en er í dag og er það þó ágætt. En tækifærin verða meiri og betri fyrir Ríkisútvarpið til að sinna þessu.

Mig langar til að vekja athygli hv. þingmanns á því af því að ég veit ekki betur en Vinstri grænir eigi líka aðild að borgarstjórn Reykjavíkur sem samþykkti að þeirri samfélagslegu stofnun sem Félagsbústaðirnir í Reykjavík eru yrði breytt yfir í hlutafélag. Ég sé ekki að Félagsbústaðirnir hafi beðið neitt tjón við það, miklu frekar að þeir hafi sinnt hlutverki sínu ágætlega og ekki komið neitt til umræðu á þeim bænum að selja þá. Ég segi að það gildir nákvæmlega sama um Ríkisútvarpið. Markmiðin eru skýr, það eru ekki áform núverandi ríkisstjórnar að selja Ríkisútvarpið, síður en svo.