132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[00:56]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum því að á dagskrá þingsins er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég verð að viðurkenna að ég fór ekki ítarlega yfir frumvarpið fyrr en í umræðunni áðan. Svipað frumvarp var flutt í fyrra og ég taldi mig af nokkru oflæti þekkja það þá af því að ég tók þátt í þeirri umræðu.

Hér tek ég eftir því að gert er ráð fyrir að numin verði brott grein í þessu frumvarpi sem lýtur að kostnaðarþátttöku Ríkisútvarpsins sem aðstandanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þ.e. 3. gr., b-liður.

En 4. mgr. 3. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Samningur sé gerður milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar á móti framlagi útvarpsins samkvæmt þessari grein og sé í samningnum miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa mótast á undanförnum árum.“

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að orðið „Ríkisútvarp“ sé numið brott, b-liður 1. mgr. 3. gr. sé numinn brott, en eftir stendur sem sé klausa um framlag útvarpsins samkvæmt þessari grein sem þá er ekki lengur til. Eiginlega er ekki boðlegt að bjóða þingheimi til umræðu um þetta.

Ég bendi á að í 36. gr. þingskapa er fyrsta setningin þessi, með leyfi forseta:

„Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði …“

Ég tel að á þessu frumvarpi sé galli á lagasniði. Hugsanlegt er að þetta séu mistök, hrein mistök, og ég ætla ekki að hafa nein orð um það en ég bið forseta að úrskurða um hvort þetta er í raun og veru þinglegt plagg sem hér liggur fyrir eða hvort það hafi ekki orðið í fyrsta lagi mistök hjá frumvarpsflytjandanum við þetta og síðan hafi þau mistök ekki uppgötvast í meðferð þingsins til þessarar umræðu. Ég treysti mér illa til að taka þátt í umræðu um lagafrumvarp sem er hreinlega svona vitlaust.