132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[01:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki sáttur við úrskurð forseta frá því áðan. Ég tel að frumvarp þetta sé ekki þinglegt, ekki tækt til umræðu á þinginu og að í raun hefði átt að vísa því frá. Það hefði átt að vísa því til baka og láta hæstv. menntamálaráðherra leggja fram nýtt frumvarp ef hann vildi það.

Þetta kann að þykja smáatriði en í fyrra var gerð athugasemd af sama toga en var þó ekki svona mikið klandur í því frumvarpi. Slíka athugasemd verður nú aftur að gera við þetta frumvarp, fyrir utan það að frumvarpið gengur hreinlega ekki upp. Lögin eru sundur slitin og ganga ekki efnislega saman með þessu frumvarpi.

Það er eins og frumvarpsflytjandinn hafi ekki nennt að lesa nema niður í 3. gr. hálfa og þó rekist á eitt orð úr 4. gr. En hún skilur eftir leifar af upphaflegu frumvarpi í 7. gr. Þar á Ríkisútvarpið að tilnefna mann í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Svo var einnig í fyrra en þá hafði gleymst að taka ríkisútvarpsmanninn út úr stjórninni. Menn hafa munað eftir því núna og sennilega rifjað upp þær athugasemdir sem gerðar voru við það en ekki gert mikið annað. Satt að segja er þessi meðferð á lagafrumvarpi um breytingu á lögum um hina 56 ára gömlu Sinfóníuhljómsveit Íslands lítilsvirðing við hljómsveitina. Ég endurtek, forseti: Frumvarpið er lítilsvirðing við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem sagt var um svipað frumvarp í fyrra, að við samfylkingarmenn erum reiðubúnir að skoða vel hvort ekki sé rétt að kljúfa þetta í sundur, að skilja Sinfóníuhljómsveitina formlega frá Ríkisútvarpinu. Dóttirin flytur þá út og stofnar sjálfstætt heimili. Ég geri mér grein fyrir að ýmsir telja að föst og góð tengsl eigi að vera á milli og jafnvel lögformleg tengsl. En því miður, og er vont frá því að segja, hafa þau tengsl verið frekar fátækleg upp á síðkastið. Ríkisútvarpið hefur ekki notfært sér þann rétt sem það hefur og þau tækifæri sem það hefur átt eins og vera skyldi að þessu leyti. Því er kannski best þetta fari svona.

Við þessa umræðu er óútskýrt hvers vegna bæjarsjóði Seltjarnarness er greidd för út úr þessum skuldbindingum en ekki borgarsjóði Reykjavíkur. Fulltrúar þeirra beggja komu á fund menntamálanefndar í fyrra og lýstu yfir sömu skoðun, að þeir kærðu sig ekki um að vera fastir í þessu frumvarpi, hvorki Reykjavík né Seltjarnarnes. Nú hefur Seltjarnarnes verið tekið út, væntanlega í samráði við Seltjarnarnesbæ, og maður hlýtur að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða samráð hefur farið fram við Reykjavík um málið?

Það er svo annað mál að menn kunna að vera þeirrar skoðunar að Reykjavík sé, eins og segir í greinargerðinni, sjálfsagðari en önnur sveitarfélög hér á svæðinu til að vera einn af bakhjörlum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hins vegar kemur ekkert fram í greinargerðinni um hvort haft hafi verið samráð við fulltrúa borgarsjóðs Reykjavíkur í þessu efni.