132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[01:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstvirtur forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð frá eigin brjósti. Ég kem til með að fylgjast af athygli með umsögnum um þetta frumvarp, m.a. frá Sinfóníuhljómsveitinni sjálfri og samtökum tónlistarmanna. Sú var nú tíðin að þverpólitísk samstaða var í landinu um að standa rækilega vörð um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Þegar ég segi þverpólitísk samstaða þá er ég ekki síður að horfa til Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka.

Í seinni tíð hefur markaðshyggjupólitík hins vegar sett meiri svip á stefnu sjálfstæðismanna en áður og langar mig af því tilefni að Sinfónían er til umfjöllunar, þ.e. tillaga um að skera á tengslin milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, að vitna í grein sem Jón Þórarinsson skrifaði í Morgunblaðið í mars á síðasta ári sem heitir: Um framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þessi grein er skrifuð í tilefni af svipuðu frumvarpi sem lá þá fyrir Alþingi.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Margt er nú rætt um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, m.a. í yfirgripsmikilli samantekt í Morgunblaðinu nýlega … Þar og víðar í þessari umræðu hefur verið talin hin mesta nauðsyn fyrir útvarpið að létt væri af því „framlagi“ til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á þessu ári er sagt nema 118,5 millj. kr. Látið er líta svo út sem þetta sé hreinn „framfærslustyrkur“, sem útvarpið hafi verið blekkt eða kúgað til að taka á sig, og hvergi er á það minnst að neitt komi á móti „framlaginu“ eða útvarpið fái neitt fyrir snúð sinn. Af þessum ástæðum þykir mér ástæða til að rifja upp nokkrar staðreyndir um þetta mál, sumpart sögulegar en sumpart bara bláberar staðreyndir.

Það var tónlistardeild Ríkisútvarpsins sem hafði forgöngu um að hrinda Sinfóníuhljómsveitinni af stokkunum 1950 að sjálfsögðu með samþykki yfirstjórnar stofnunarinnar. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að efla og bæta íslenskan tónlistarflutning útvarpsins. Því markmiði var náð, m.a. með tilstyrk ríkis og Reykjavíkurborgar sem veittur var þegar á fyrstu árunum, og í kaupbæti kom svo opinbert tónleikahald sem brátt varð veigamikill þáttur í tónlistarlífinu.

Hér verður ekki rakin uppvaxtarsaga hljómsveitarinnar, en aðeins minnt á það, að þegar sjálfstæð starfsemi hennar komst í þrot 1961 sá Ríkisútvarpið sér hag í að taka við rekstrinum með þeim styrkjum frá ríki og borg sem þá voru. Þessi skipan hélst óbreytt í meira en tvo áratugi. Eflaust var reksturinn oft fjárhagslega erfiður, en þó var honum haldið áfram. Það mun hafa verið útvarpinu nokkur léttir, þegar lög voru sett um hljómsveitina 1982 og lagður sá rekstrargrundvöllur hennar sem enn stendur. Þar er kveðið á um að hlutur útvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar skuli vera 25%, en á móti veiti hljómsveitin þjónustu „miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa mótast á undanförnum árum“, þ.e. meðan stjórn hljómsveitarinnar var alfarið í höndum starfsmanna útvarpsins.

Samkvæmt lögunum var gerður samningur um þessa þjónustu við Ríkisútvarpið. Hann hefur síðar verið endurnýjaður og endurskoðaður, en í honum felst þetta m.a.:

1. Heimild til að útvarpa beint, eða síðar af upptökum, öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og öðrum tónleikum á hennar vegum. Innifalin er þátttaka stjórnenda og einleikara/söngvara.

2. Heimild til að sjónvarpa tónleikum eða taka þá upp fyrir sjónvarpið til flutnings án endurgjalds.

3. Vinna við upptökur í þágu Ríkisútvarpsins, 25 vinnulotur á ári, allt að þrjár og hálf klukkustund hver lota, ásamt ótakmörkuðum flutningsrétti á upptökunum.

Þessi ákvæði hefur útvarpið nýtt með þeim hætti að samkvæmt 1. lið hefur verið útvarpað um 35 sinfóníutónleikum á ári, eða sem svarar 80–90 klukkustundum af útvarpsefni. Tónleikarnir eru glæsilegur þáttur í íslenskum tónlistarflutningi Rásar 1, og raunar ein af helstu skrautfjöðrum dagskrárinnar. Þetta efni hefur einatt verið notað umfram ströngustu heimildir, bæði í endurflutningi og efnisskiptum við erlendar útvarpsstöðvar.

Sjónvarpsheimildin samkvæmt 2. lið má heita ónýtt með öllu. Það skal viðurkennt að ekki eru allir tónleikar ákjósanlegt sjónvarpsefni, en sumir eru það. Vínartónleikar eru eftirsóttir í sjónvarpi í mörgum löndum, einnig óperutónleikar, svo að eitthvað sé nefnt. Og oft eru einstök verk á tónleikum sem mjög gætu lífgað sjónvarpsdagskrá, þótt tónleikarnir séu ekki teknir í heild. Það hefur komið fyrir að öðrum sjónvarpsstöðvum hefur verið seldur upptökuréttur að einstökum tónleikum. Verðið hefur verið lágt, á aðra milljón króna, en gefur þó hugmynd um þau verðmæti sem dagskrárstjórn sjónvarpsins hefur ekki hirt um að nýta þótt þau standi því til boða endurgjaldslaust.

Upptökutími Ríkisútvarpsins var lengi vel nýttur aðallega til upptöku á nýjum verkum íslenskra tónskálda, og ræktu bæði útvarpið og hljómsveitin þannig sjálfsagðar skyldur sínar við íslenskt menningarlíf. Á síðari árum hefur slaknað á þessu, og stundum hefur útvarpið ekki sinnt um að nota umsaminn tíma sinn. Hefur hljómsveitin þá ráðstafað honum til annarra þarfa.

Það lætur nærri að þær 25 vinnulotur sem nú eru í samningnum, upphaflega fimm vinnuvikur, séu um 10% af virkum árlegum starfstíma hljómsveitarinnar. Þær má því meta til fjár á rétt um 52 millj. kr.

Verðmæti heimildanna í 1. og 2. lið hér að ofan, nýttra og ónýttra, er erfiðara að áætla en þær yrðu vart metnar lægra en svo að „framlag“ Ríkisútvarpsins mætti telja væga greiðslu fyrir þá þjónustu sem því stendur til boða.

Hitt er svo hörmuleg staðreynd að Ríkisútvarpið hefur ekki hirt um að notfæra sér heimildirnar nema að nokkrum hluta, en það er framkvæmdaratriði sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins.“

Undir þessa grein skrifar Jón Þórarinsson. Hann var sem kunnugt er dagskrárstjóri hjá sjónvarpinu langan tíma og áhrifamaður mikill um tónlistarflutning innan stofnunarinnar, sjálfur tónskáld, og leggur í grein sinni áherslu á menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins.

Ég man að á þeim tíma er ég var starfsmaður í Ríkisútvarpinu hlustaði ég á sjónarmið þáverandi stjórnenda Ríkisútvarpsins, Andrésar Björnssonar útvarpsstjóra og fleiri sem báru mjög hag Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins fyrir brjósti. Þeir vildu ekki skera á þessi tengsl. Þeir horfðu á þann ávinning sem samstarfið og sambýlið við Sinfóníuhljómsveit Íslands færði Ríkisútvarpinu. Nú virðist hins vegar allt ganga út á að losa sig við allar þær skyldur, þær kvaðir en þannig er litið á sambýlið við Sinfóníuhljómsveitina. Menn vilja losa sig við alla slíka bagga af Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé misráðið. Ríkisútvarpið á að sækjast eftir að axla menningarlegar skyldur. Þar erum við aftur komin að ástæðu þess að við teljum mikilvægt að halda sérstöðu Ríkisútvarpsins, færa það ekki yfir í fyrirtækjaform og yfir á markað. Heldur sé það ríkisstofnun sem sinni menningarlegu hlutverki.

Í grein Jóns Þórarinssonar er vandlega útskýrt samspil og sambýli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég hef allan fyrirvara á um afstöðu mína til þessa frumvarps. Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með því, og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem fram kemur frá umsagnaraðilum, Sinfóníuhljómsveitinni sjálfri eins og ég nefndi áðan, samtökum listamanna og öðrum sem er annt um hag þessarar menningarstarfsemi.