132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af stóru verkefnunum í íslenskum menntamálum er að efla verk- og listnám í framhaldsskólunum, efla starfsnámið. Fyrir því höfum við stjórnarandstæðingar barist mjög á síðustu árum og kallað eftir þverpólitískri sátt um það verkefni, sem er í samræmi við þá þverpólitísku sáttargjörð sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ítrekað kallað eftir í málefnum fjölmiðla. Hér er um að ræða mikilvægt verkefni á sviði menntamála og liggur starfsemi framhaldsskólans að mörgu leyti til grundvallar. Í ljósi þeirrar sáttfýsi sem hæstv. menntamálaráðherra hefur í orði kveðnu haft í málefnum fjölmiðla kom það okkur ákaflega spánskt fyrir sjónir að frétta að skipaður hefði verið starfshópur um starfsnám á vegum menntamálaráðherra sem í á sæti aðeins einn þingmaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, með fullri virðingu fyrir þeim ágæta manni. Ekkert samráð eða samband er haft við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í málinu og því áteljum við, allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd sameiginlega, vinnubrögð menntamálaráðherra í þessu máli í yfirlýsingu sem við sendum frá okkur.

Um leið og við fögnum því að loksins skuli hæstv. menntamálaráðherra skipa þennan starfshóp mótmælum við því eindregið hvernig staðið er að því. Ráðherra hefur skipað átta manna nefnd til að kanna stöðu verknámsins án þess að hafa samráð við stjórnarandstöðuna eða fulltrúa hennar í menntamálanefnd. Það teljum við ámælisverð vinnubrögð. Um er að ræða þverpólitískt, mikilvægt og viðkvæmt málefni á sviði menntamála, sem við höfum ítrekað beitt okkur í á liðnum árum. Hæstv. ráðherra hefur oft lýst yfir vilja sínum til að vinna að þessu máli. Þar sem um er að ræða eitt af brýnustu verkefnum íslenskra skólamála veldur það miklum vonbrigðum að hún skuli ekki sjá sér fært að sýna samstarfsvilja og leita eftir samráði við stjórnarandstöðuna.

Við teljum framgöngu ráðherra einkar dapurlega og einungis til þess fallna að skaða málstað starfsnáms í landinu í stað þess að vinna því brautargengi og efla það.