132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:36]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Málin verða nú ekki miklu stærri. Ráðherra skipar faglega nefnd og hefur ekki samráð við stjórnarandstöðuna. Förum yfir það hverjir eru í nefndinni. Ég ætla bara að lesa það hér svo menn átti sig á því um hverja er að ræða, virðulegi forseti. Þar er Jón B. Stefánsson, skólameistari Fjöltækniskóla Íslands, Aðalheiður Steingrímsdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands, Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík, Emil B. Karlsson verkefnastjóri, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Hjálmar Árnason alþingismaður, Ingi Bogi Bogason sviðsstjóri, tilnefndur af samtökum iðnaðarins, Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, tilnefnd af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Stefán Ó. Guðmundsson fræðslustjóri, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands.

Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að hér er enginn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ekkert samráð var haft við þann flokk þegar þessi nefnd var sett á laggirnar. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég ætla ekkert að gagnrýna minn góða hæstv. ráðherra, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, fyrir það því að hér er um að ræða faglega nefnd sem vinnur örugglega vel.

Það sem vekur athygli mína er tvennt: Það er annars vegar það að hér erum við með Samfylkinguna sem kaus sér formann sem eitt sinn var borgarstjóri. Ég var í borgarstjórn og í minni hluta og ég man ekki eftir því að sá ágæti hv. þingmaður hafi nokkurn tíma viljað hafa samráð um nokkurn skapaðan hlut sem skipti máli. Ekki að það sé til eftirbreytni — enda hef ég engar áhyggjur af því að minn góði varaformaður, hæstv. ráðherra Þorgerður K. Gunnarsdóttir, muni nokkurn tíma falla í þann pytt. En það að menn í stjórnarandstöðunni taki þetta upp með þessum hætti segir okkur bara eitt og við skulum ekki gera grín að því: Það er erfitt að vera í stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga. Hér eru engin mikilvæg mál sem hægt er að taka upp og þess vegna er í fullri alvöru verið að gagnrýna að skipuð sé fagleg nefnd á vegum ráðuneytisins.