132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:39]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér á hinu háa Alþingi hafa verið haldnar ótal ræður um að skipa nefnd til að fara yfir stöðu starfs- og verknáms og finna leiðir til að efla það. Ekki hefur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson látið sitt eftir liggja í þeim málum.

Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra skipað starfshóp til að fara yfir málið og ber að fagna því sérstaklega. Í starfshópnum er úrvalsfólk og, eins og hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra og öðrum, fagfólk í greininni. Ég hef heimildir fyrir því að starfið hafi nú þegar farið af stað af miklum krafti vegna þess að fólk hefur beðið eftir að slíkt starf yrði sett af stað. Við ættum, hæstv. forseti, að fagna þessu og hef ég miklar væntingar til þessa starfs. Ég held að það sé ekki rétt í þessu máli að vera að tína til hvort einstaka flokkar hafi fengið að tilnefna í þennan hóp. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta er fagfólk í sinni grein. Við höfum öll góða trú á þessu starfi og ég vona að því ljúki sem fyrst. Ég held að ekki sé ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta og horfi ég þá sérstaklega á hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson sem var sérstaklega sár fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins — ég veit að hann deilir þeirri skoðun með mér að hópurinn muni komast að góðri og faglegri niðurstöðu.