132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er í raun sorglegt að svo mikilvægt mál sem það að endurskipuleggja starfsnám í landinu skuli fara í slíkan farveg sem við höfum þurft að hlusta á hér í dag. Þetta er auðvitað mál sem á að vera yfir það hafið að menn séu dregnir í flokka þegar skipað er í starfshópa og ég fagna því sem hæstv. menntamálaráðherra sagði að hópurinn hefði verið valinn faglega og við verðum að trúa því og treysta að þannig muni þessi hópur starfa því svo mikilvægt er málið að það má ekki detta niður í far flokkastjórnmála. Þess vegna var það auðvitað afar óheppilegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli skipa einn þingmann í hópinn og að það skuli hittast svo á að það sé formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Það er afskaplega óheppilegt í þessu samhengi vegna þess að það setur málið í þetta samhengi. Rök hæstv. ráðherra fyrir því vali standast ekki vegna þess að ef það var eingöngu það að hv. þm. Hjálmar Árnason hefur starfað sem skólameistari í verkmenntaskóla þá er málið óvart þannig að það eru fleiri þingmenn til í þessum sal sem það hafa gert en eru að vísu ekki í stjórnarliðinu og getur verið að það hafi skipt einhverju máli? Ég vona ekki og trúi því og treysti að það ágæta fólk sem situr í þessum hópi muni sinna málinu vel og við getum náð því upp úr því fari sem skipun hins ágæta hv. þm. Hjálmars Árnasonar hefur því miður sett á þennan hóp.

Við verðum að vona að hv. þingmaður geti hafið sig yfir það að vera formaður þingflokks Framsóknarflokksins því oft og tíðum sjáum við það í þessum sal að hann gleymir öllu öðru en því. En við verðum að vona að tillögur hópsins verði notaðar og að við getum nýtt þær og ég vona að hæstv. menntamálaráðherra meini eitthvað með því að hleypa öðrum að þessu starfi og það mun svo sannarlega ekki standa á Samfylkingunni í þeim efnum (Forseti hringir.) enda höfum við lagt fram ítarlegar tillögur um málið.